Hoppa yfir valmynd
17. maí 2001 Matvælaráðuneytið

Nr. 11/2001 - Reglur um innflutning dýra

Fréttatilkynning frá landbúnaðarráðuneytinu nr. 11/2001

Reglur um innflutning dýra


Í tilefni af fréttaflutningi undanfarið varðandi innflutning á hvolpafullri Rottweilertík og ákvörðun landbúnaðarráðuneytisins um að hvolpunum skyldi lógað strax eftir fæðingu vill ráðuneytið koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum:

Hinn 10. október 2000 fékk innflytjandi umræddrar Rottweilertíkur leyfi landbúnaðarráðuneytisins til að flytja tíkina til landsins. Með undirritun sinni á innflutningsleyfið samþykkti eigandinn að gangast undir ýmis skilyrði, þ.á.m. að óheimilt væri að flytja inn hvolpafullar tíkur og að eigandi bæri alla ábyrgð væri það gert. Ennfremur samþykkti eigandinn að tíkinni yrði lógað bótalaust á hans kostnað ef brugðið yrði út af skilyrðum innflutningsleyfisins og sóttvarnardýralæknir krefðist þess. Engu máli skiptir í þessu sambandi hvort innflytjanda sé kunnugt eða ókunnugt um að tík gangi með hvolpa.

Rottweilertíkin var flutt í einangrunarstöð gæludýra í Hrísey þann 12. mars s.l.. Þegar í ljós kom að tíkin var hvolpafull var hún það langt gengin með að möguleikinn að senda hana úr landi var ekki til staðar. Eiganda tíkurinnar var þá tilkynnt að hvolpunum yrði lógað strax eftir fæðingu í samræmi við ákvæði innflutningsleyfisins en að ákveðið hefði verið að tíkin skyldi að óbreyttu fá að lifa. Sá möguleiki er ávallt fyrir hendi að hvolpar geti borið með sér smitsjúkdóma þótt mæður þeirra kunni að reynast heilbrigðar.

Samkvæmt lögum um dýrasjúkdóma skulu dýr höfð í einangrun svo lengi sem yfirdýralæknir telur þörf á undir eftirliti sóttvarnardýralæknis. Tíkin byrjaði að gjóta þann 7. þ.m. en átti í erfiðleikum og tók dýralæknir þá ákvörðun að framkvæma keisaraskurð. Þrír hvolpar voru dauðfæddir en tveir fæddust lifandi og voru þeir tafarlaust aflífaðir. Tíkin var afhent eiganda þegar hún var ferðafær og niðurstöður úr nauðsynlegum rannsóknum á tíkinni höfðu borist. Hagsmunir annarra dýraeigenda í landinu eru meiri en svo að forsvaranlegt sé að tefla þeim í tvísýnu með því að taka óþarfa áhættu.

Framangreindar ákvarðanir ráðuneytisins grundvallast að öllu leyti á lögum nr. 54/1990 um innflutning dýra með síðari breytingum.
Í landbúnaðarráðuneytinu, 16. maí 2001



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta