Hoppa yfir valmynd
17. maí 2001 Innviðaráðuneytið

Skýrsla um fjarskiptaþjónustu vegna fjarkennslu

Niðurstöður nefndar um fjarskiptaþjónustu vegna fjarkennslu



Frétt frá menntamálaráðuneyti 17. maí 2001
Skýrsla nefndar um fjarskiptaþjónustu vegna fjarkennslu

Nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins hefur skilað skýrslu með tillögum um úrbætur í fjarskiptaþjónustu vegna fjarkennslu og hefur Björn Bjarnason, menntamálaráðherra, kynnt skýrsluna í ríkisstjórn. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar menntamálaráðuneytis, samgönguráðuneytis, Kvasis, samtaka símenntunarmiðstöðva, félags framhaldsskóla og samstarfsnefndar háskólastigsins. Fékk nefndin Gísla Hjálmtýsson, prófessor við Verkfræðideild Háskóla Íslands, til þess að vinna greinargerð um mögulegar fjarskiptalausnir en einnig var haft samráð við Byggðastofnun.

Fjarkennsla hefur aukist hröðum skrefum á undanförnum árum. Skólar bjóða hana í vaxandi mæli og símenntunarmiðstöðvar eru nýr og mikilvægur hlekkur í miðlun fjarkennslu. Símenntunarmiðstöðvarnar eru nú átta talsins í öllum landshlutum og á vegum þeirra stunda nemendur meðal annars nám með aðstoð fjarfundabúnaðar. Verður sífellt brýnna að tryggja greið fjarskipti vegna fjarnáms.

Tillögur nefndarinnar miðast við að í uppbyggingu fjarskiptaþjónustu vegna fjarkennslu verði leitast við að nýta Internetið (IP staðla) sem mest en minni áhersla lögð á hefðbundnar símalausnir, s.s. ISDN og ATM, eins og hingað til hefur verið gert. Til þess að tryggja miðlun fjarfunda leggur nefndin til að boðin verði út þjónusta vegna þeirra með svokallaðri IP-brú. Hún gerir kleift að miðla fjarfundum milli aðila sem hafa mismunandi tengingar sín á milli en jafnframt að nýta möguleika háhraðatengingar milli þeirra sem hafa yfir þeim að ráða. Leggur nefndin til að samráð verði haft við ríkisaðila og sveitarfélög um útboð á þjónustu vegna slíks fjarfundakerfis.

Þá leggur nefndin til að komið verði upp háhraðaneti símenntunarmiðstöðva og framhaldsskóla sem tengist væntanlegu rannsókna- og háskólaneti. Uppbygging háhraðanetsins verði í áföngum en gert er ráð fyrir að það verði komið á milli allra framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðva innan þriggja ára. Til þess að ná fram þessu markmiði og hagræðingu í uppbyggingu netsins verði leitað til ríkisaðila um að þeir skilgreini fjarskiptaþarfir sínar með samnýtingu slíks nets í huga. Til þess að stuðla að frekari uppbyggingu fjarkennslunets í sveitarfélögum verði þau hvött til þess að kynna sér kosti við uppbyggingu fjöleignaneta þar sem margar stofnanir sveitarfélaga eru tengdar saman í einu neti.

Skýrslu nefndarinnar er að finna í rafrænu formi á heimasíðu menntamálaráðuneytisins: www.menntamalaraduneyti.is

Menntamálaráðuneytið, 17. maí 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta