Hoppa yfir valmynd
18. maí 2001 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samræmd próf í 10. bekk vorið 2002

Til skólastjóra og skólanefnda

Samræmd próf í 10. bekk vorið 2002

Í bréfi menntamálaráðuneytisins dags. 27. mars 2001, var skólastjórum og skólanefndum grunnskóla tilkynnt að samræmd lokapróf yrðu lögð fyrir í sex námsgreinum í 10. bekk vorið 2002, sbr. reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra lokaprófa í 10. bekk í grunnskólum nr. 414/2000 og aðalnámskrá grunnskóla frá 1999.

Menntamálaráðherra hefur ákveðið að vorið 2002 verði samræmd lokapróf í 10. bekk í fimm námsgreinum í stað sex eins og fram kom í fyrrnefndu bréfi. Námsgreinar sem prófað verður úr vorið 2002 eru: íslenska, danska, enska, náttúrufræði og stærðfræði.

Ákveðið hefur verið að fresta framkvæmd samræmds prófs í samfélagsgreinum til vorsins 2003. Þessi ákvörðun byggir á niðurstöðum könnunar Námsmatsstofnunar á kennslu samfélagsgreina á unglingastigi sem gerð var haustið 2000. Könnunin leiðir m.a. í ljós að aðlögun skóla að aðalnámskrá grunnskóla er ekki að fullu lokið í samfélagsgreinum enda um verulegar breytingar að ræða frá fyrri námskrá. Því er ljóst að þeir nemendur sem þreyta eiga samræmd lokapróf í samfélagsgreinum í 10. bekk vorið 2002, hafa almennt ekki fengið kennslu samkvæmt aðalnámskrá í 8. til 10. bekk.

Prófgreinar og prófdagar í 10. bekk grunnskóla vorið 2002 verða sem hér segir:

Íslenska, þriðjudagur 23. apríl, kl. 9.00-12.00
Enska, miðvikudagur 24. apríl, kl. 9.00-12.00
Náttúrufræði, föstudagur 26. apríl, kl. 9.00-12.00
Stærðfræði, mánudagur 29. apríl, kl. 9.00-12.00
Danska, þriðjudagur 30. apríl, kl. 9.00-12.00

Námsmatsstofnun mun á næstunni senda skólum gögn vegna undirbúnings prófa í náttúrufræði vorið 2002 og samfélagsgreinum vorið 2003, þar sem fram kemur uppbygging prófanna ásamt sýnishornum af prófspurningum.

(Maí 2001)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta