Skýrsla um stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 7/2001
Þann 18. apríl árið 2000 fól viðskiptaráðherra Samkeppnisstofnun að gera úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja sem starfa á íslenskum markaði. Áður höfðu þingmenn Samfylkingarinnar lagt fram beiðni þar um á Alþingi. Sambærileg úttekt var gerð fyrir atbeina Alþingis árið 1994.
Skýrslan sem hér er kynnt byggir á tölum frá árinu 1999 en úttektin árið 1994 byggði á tölum frá árinu áður. Á milli áranna 1993 og 1999 hafa orðið miklar breytingar í íslensku atvinnulífi. Nýjar atvinnugreinar hafa orðið til og öðrum hefur vaxið fiskur um hrygg. Nýir eigendur og ný kynslóð stjórnenda hefur komið til sögunnar. Ríkisfyrirtæki hafa verið einkavædd og seld. Með auknu frelsi í viðskiptum hafa erlend fyrirtæki frjálsari aðgang að íslenska markaðnum.
En þrátt fyrir þessar miklu breytingar í íslensku atvinnulífi og umhverfi þess er eftirtektarvert að niðurstöður þessarar úttektar eru svipaðar niðurstöðum úttektarinnar 1994.
Helstu niðurstöður skýrslunnar eru eftirfarandi:
- Lítil tengsl milli eignar og valds
Meginskýringin á litlum tengslum eignar og valds í fyrirtækjum er að ríki og sveitarfélög ásamt lífeyrissjóðum og sjálfseignarstofnunum eiga drjúgan hluta atvinnulífsins. Þá eru mörg stærstu hlutafélög landsins að stórum hluta í dreifðri eign almennings sem hefur lítil afskipti af stjórnun þeirra.
- Fákeppni víða í íslensku atvinnulífi.
Fákeppni einkennir íslenskt atvinnulíf. Þessarar tilhneigingar gætir einnig í nýjum atvinnugreinum sem hafa verið að hasla sér völl.
- Áhrif ríkisins mikil
Þrátt fyrir sölu ríkisfyrirtækja hefur eignarhlutur ríkisins í atvinnulífinu aukist milli áranna 1993 og 1999. Þetta skýrist af því að atvinnugreinar þar sem eignarhlutur ríkisins er stór s.s. í fjármálum, fjarskiptum og orkumálum, hafa vaxið meira en aðrar. Þannig hefur atvinnulífið í heild vaxið um fjórðung á meðan hlutur ríkisins hefur vaxið um nær þriðjung.
- Fyrirtækjasamsteypur áberandi í atvinnulífinu.
Fyrirtækjasamsteypum hefur fjölgað í atvinnulífinu m.a. í verslun og hátæknigreinum. Eldri samsteypur hafa aukið umsvif sín þar sem þær voru fyrir og í nýjum greinum.
- Eignarhald ógagnsærra.
Með fjölgun eignarhaldsfélaga er erfiðara að greina hverjir séu raunverulegir eigendur fyrirtækja. Það sem gerir málið enn torræðara er að sum þessara félaga eru erlend.
Efni skýrslunnar er raðað í þrjá kafla. Í fyrsta kafla er fjallað um efnistök, ýmsar forsendur sem liggja að baki úttektinni, helstu niðurstöður hennar og lýsingar á myndefni. Í öðrum kafla er lýst einstökum mörkuðum og gerð er grein fyrir fjölda og stærð fyrirtækja á þeim. Þá er einnig gerð grein fyrir eignarhaldi og eignatengslum innan hvers markaðar fyrir sig. Í þriðja kafla er síðan lýst eignarhaldi og eignatengslum fyrirtækja á milli markaða. Þar er og gerð grein fyrir eignarhaldi og eignatengslum fyrirtækjasamsteypa.
Þessi skýrsla fjallar um fleiri atvinnugreinar en úttektin árið 1994. Þá er nokkrum atvinnugreinum nú meira skipt upp í samræmi við eðli starfseminnar.
Vegna þess hve efni skýrslunnar er margþætt og flókið er ekki auðvelt að setja það fram svo aðgengilegt sé. Valin var sú leið eins og síðast að setja efnið fram myndrænt og með töflum. Að mati Samkeppnisstofnunar kemst það best til skila með þeim hætti.
Reykjavík 18. maí 2001.