Rannsókna- og háskólanet Íslands
RHnet -- Rannsókna- og háskólanet Íslands
Vefur http://www.rhnet.is
Hinn 24. janúar 2001 var stofnað hlutafélagið Rannsókna- og háskólanet Íslands (RHnet). Tilgangur félagsins er að tengja íslenska háskóla og rannsóknarstofnanir saman um háhraða tölvunet og annast þjónustu á sviði tölvusamskipta, hvort sem er innanlands eða alþjóðlega. Rannsókna- og háskólanet (RHnet) er sett á laggirnar með það að markmiði að efla möguleika íslenska háskóla- og rannsóknasamfélagsins til samskipta, bæði sín á milli og út á við. Félagið mun annast tengsl við NORDUnet, sem er sameiginlegt háskóla- og rannsóknanet Norðurlanda. Aðsetur RHnets er í Háskóla Íslands, Tæknigarði.
Stofnendur RHnets eru: Háskóli Íslands, Kennaraháskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Reykjavík, Listaháskóli Íslands, Landbúnaðarháskólinn Hvanneyri, Viðskiptaháskólinn Bifröst, Hólaskóli, Garðyrkjuskóli ríkisins, Landspítali-háskólasjúkrahús, Norræna eldfjallastöðin, Iðntæknistofnun Íslands, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Orkustofnun, Hafrannsóknastofnunin og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.
RHnet er lokað net sem eingöngu er ætlað viðurkenndum íslenskum háskólum sem veita háskólagráðu í minnst einni grein og íslenskum rannsóknastofnunum sem stunda vísindalegar grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir og njóta viðurkenningar af hálfu ríkisvaldsins. Heimilt er þó að veita öðrum aðilum aðgang að RHneti, enda sé viðkomandi aðili í samstarfi við háskóla eða rannsóknastofnun og fyrir liggi að tengingin þjóni hagsmunum rannsóknasamfélagsins. RHnet annast hins vegar ekki nettengingu til einstaklinga.
Skýringarmynd af áformuðum 1. áfanga í uppbyggingu RHnets
(frá kynningu á RHnet á UT-2001)
Upplýsingar af vef Rannsókna- og háskólanets Íslands