Hoppa yfir valmynd
25. maí 2001 Matvælaráðuneytið

Fréttatilkynning frá Islandica

Frétt frá Islandica – 25. maí 2001 www.islandica.com

Islandica 2001 – ævintýrið um íslenska hestinn



Ráðherrarnir Valgerður Sverrisdóttir, Guðni Ágústsson og Sturla Böðvarsson hleypa í dag af stað kynningu á stórsýningunni Islandica 2001 sem haldin verður í Laugardalshöll í byrjun september. Þetta gera ráðherrarnir með viðeigandi hætti – á hestbaki – og fá til liðs við sig heiðursvörð íslenskra hestamanna.

Sýningin Islandica 2001 – ævintýrið um íslenska hestinn – verður haldin í Laugardalshöll dagana 7.-9. september næstkomandi og er í senn hátíð fyrir alla fjölskylduna og alþjóðleg hestavörusýning þar sem vörur og þjónusta tengd íslenska hestinum verða í öndvegi. Sýningin er sú fyrsta sinnar tegundar sem haldin er hér á landi en fyrirmynd hennar er hin þekkta Equitana-sýning sem haldin er í Þýskalandi annað hvert ár.

Markmiðið með Islandica 2001 er að auka veg íslenska hestsins og efla þá fjölbreyttu atvinnustarfsemi sem tengist honum, í ferðaþjónustu, verslun, iðnaði og landbúnaði. Sýningin er einstakt tækifæri fyrir þá sem koma að þjónustu og framleiðslu sem tengist hestamennsku og útivist. Áhugi á sýningunni er mjög mikill og hefur fjöldi aðila bókað sýningaraðstöðu.

Islandica 2001 er samstarfsverkefni iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta, landbúnaðarráðuneytis, samgönguráðuneytis og íslenskra hestamanna og því koma ráðherrarnir þrír við sögu með fyrrgreindum hætti.

Laugardalurinn verður iðandi af lífi sýningardagana þrjá í september. Alþjóðleg hestaþjónustu- og hestavörusýning verður aðdráttaraflið í Laugardalshöllinni. Þar munu innlendir og erlendir aðilar sýna vörur og búnað til hestamennsku og kynna nýjungar í ferðaþjónustu, þar sem hesturinn gegnir lykilhlutverki.

Í Skautahöllinni verða glæsilegar hestasýningar alla sýningardagana. Einnig verður frumflutt einstök leiksýning – Gala-sýning – sem byggir á samspili hests og manns. Sigurbjörn Bárðarson verður sýningarstjóri, Kjartan Ragnarsson og Benedikt Erlingsson semja leikgerð verksins og leikstýra og Gunnar Þórðarson semur tónlist.

Í tengslum við Islandica 2001 verður haldin handverkssýning í anddyri Laugardalshallar. Efnt hefur verið til viðamikillar samkeppni um hönnun á listmunum tengdum íslenska hestinum og verða allir gripir sýndir á sýningunni. Fjölbreyttar uppákomur og leiksýningar verða í boði fyrir börnin á Islandica. Þeim verður boðið að fara á hestbak, ferðast í hestakerru og heimsækja Húsdýragarðinn, en auk þess verða kraftakarlar og trúðar á ferli.

Islandica 2001 er afrakstur hugmyndavinnu nefndar á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta sem skipuð var til að kanna möguleika á auknum útflutningi iðnaðarframleiðslu sem tengist eða tengja má íslenska hestinum. Tillaga nefndarinnar var að efna til alþjóðlegrar hestasýningar á Íslandi og hófst undirbúningur árið 1998. Stefnt er að því að Islandica-sýningin verði reglulegur viðburður og haldin annað hvert ár.

Formaður nefndarinnar er Einar Bollason. Eysteinn Leifsson fer fyrir heiðursverði íslenskra hestamanna. Ferðaskrifstofa Íslands annast undirbúning og framkvæmd sýningarinnar.

Nánari upplýsingar:
· Fannar Jónasson, framkvæmdastjóri Islandica 2001, s: 864 2100
· Einar Bollason, formaður stjórnar Islandica 2001, s: 860 7000

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta