Hoppa yfir valmynd
25. maí 2001 Innviðaráðuneytið

Islandica 2001

Ráðherrarnir Valgerður Sverrisdóttir, Guðni Ágústsson og Sturla Böðvarsson hleypa í dag af stað kynningu á stórsýningunni Islandica 2001 sem haldin verður í Laugardalshöll í byrjun september.

Þetta gera ráðherrarnir með viðeigandi hætti, á hestbaki, og fá til liðs við sig heiðursvörð íslenskra hestamanna.

Sýningin Islandica 2001 - ævintýrið um íslenska hestinn verður haldin í Laugardalshöll dagana 7.-9. september næstkomandi og er í senn hátíð fyrir alla fjölskylduna og alþjóðleg hestavörusýning þar sem vörur og þjónusta tengd íslenska hestinum verða í öndvegi. Sýningin er sú fyrsta sinnar tegundar sem haldin er hér á landi en fyrirmynd hennar er hin þekkta Equitanasýning sem haldin er í Þýskalandi annað hvert ár.

Markmiðið með Islandica 2001 er að auka veg íslenska hestsins og efla þá fjölbreyttu atvinnustarfsemi sem tengist honum, í ferðaþjónustu, verslun, iðnaði og landbúnaði. Sýningin er einstakt tækifæri fyrir þá sem koma að þjónustu og framleiðslu sem tengist hestamennsku og útivist. Áhugi á sýningunni er mjög mikill og hefur fjöldi aðila bókað sýningaraðstöðu.

Islandica 2001 er samstarfsverkefni iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta, landbúnaðarráðuneytis, samgönguráðuneytis og íslenskra hestamanna og því koma ráðherrarnir þrír við sögu með fyrrgreindum hætti.

Laugardalurinn verður iðandi af lífi sýningardagana þrjá í september. Alþjóðleg hestaþjónustu- og hestavörusýning verður aðdráttaraflið í Laugardalshöllinni. Þar munu innlendir og erlendir aðilar sýna vörur og búnað til hestamennsku og kynna nýjungar í ferðaþjónustu, þar sem hesturinn gegnir lykilhlutverki.

Í Skautahöllinni verða glæsilegar hestasýningar alla sýningardagana. Einnig verður frumflutt einstök leiksýning, Galasýning sem byggir á samspili hests og manns. Sigurbjörn Bárðarson verður sýningarstjóri, Kjartan Ragnarsson og Benedikt Erlingsson semja leikgerð verksins og leikstýra og Gunnar Þórðarson semur tónlist.

Í tengslum við Islandica 2001 verður haldin handverkssýning í anddyri Laugardalshallar. Efnt hefur verið til viðamikillar samkeppni um hönnun á listmunum tengdum íslenska hestinum og verða allir gripir sýndir á sýningunni. Fjölbreyttar uppákomur og leiksýningar verða í boði fyrir börnin á Islandica. Þeim verður boðið að fara á hestbak, ferðast í hestakerru og heimsækja Húsdýragarðinn, en auk þess verða kraftakarlar og trúðar á ferli.

Islandica 2001 er afrakstur hugmyndavinnu nefndar á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta sem skipuð var til að kanna möguleika á auknum útflutningi iðnaðarframleiðslu sem tengist eða tengja má íslenska hestinum. Tillaga nefndarinnar var að efna til alþjóðlegrar hestasýningar á Íslandi og hófst undirbúningur árið 1998. Stefnt er að því að Islandicasýningin verði reglulegur viðburður og haldin annað hvert ár.

Formaður nefndarinnar er Einar Bollason. Eysteinn Leifsson fer fyrir heiðursverði íslenskra hestamanna. Ferðaskrifstofa Íslands annast undirbúning og framkvæmd sýningarinnar.

Nánari upplýsingar:
· Fannar Jónasson, framkvæmdastjóri Islandica 2001, s: 864 2100
· Einar Bollason, formaður stjórnar Islandica 2001, s: 860 7000

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum