Hoppa yfir valmynd
29. maí 2001 Utanríkisráðuneytið

Nr. 049, 29. maí 2001. Vorfundur utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins í Búdapest

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 049


Vorfundur utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins var haldinn í Búdapest í dag. Ástand mála á Balkanskaga og aðgerðir bandalagsins þar voru efst á baugi.
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sagði mikilvægast nú að bandalaginu tækist að tryggja stöðugleika í fyrrum júgóslavneska lýðveldinu Makedóníu. Lýsti hann yfir stuðningi við stjórnvöld þar í landi en áréttaði jafnframt nauðsyn þess að þau komi til móts við réttmætar kröfur albanska minnihlutans. Aðeins þannig mætti koma í veg fyrir að albönskum öfgaöflum vaxi fiskur um hrygg með ófyrirsjáanlegum afleiðingum sagði utanríkisráðherra. Ennfremur ræddu ráðherrarnir samstarf Atlantshafsbandalagins og Evrópusambandsins, þá sérstaklega á Balkanskaga. Javier Solana, fulltrúi Evrópusambandsins, sat fundinn og greindi ráðherrum frá viðræðum sínum við ráðamenn í Skopje og fulltrúa albanska minnihlutans í gær. Solana mun síðan á morgun greina ráðherrunum nánar frá gangi mála, en þá fer fram fyrsti sameiginlegi ráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandins.
Síðar í dag og á morgun verða haldnir fundir samstarfsráðs Atlantshafsbandalagsins og Rússlands, samstarfsnefndar Atlantshafsbandalagsins og Úkraínu og Evró-Atlantshafsráðsins. Sérstakur gestur á síðastnefnda fundinum verður Svilanovic, utanríkisráðherra Sambandslýðveldisins Júgóslavíu.
Þetta var fyrsti ráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins sem haldinn er í fyrrverandi aðildarríki Varsjárbandalagsins nú tveimur árum eftir að Ungverjaland, Pólland og Tékkland urðu aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Næsti vorfundur utanríkisráðherra bandalagsins verður haldinn í Reykjavík að ári.
Yfirlýsing fundarins er hjálögð. Nánari upplýsingar um ráðherrafundinn er að finna á heimsíðu Atlantshafsbandalagins (www.nato.int).



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 29. mai 2001.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta