Nr. 054, 7. júní 2001. Utanríkisráðherrafundur Eystrasaltsráðsins
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 054
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat í dag utanríkisráðherrafund Eystrasaltsráðsins í Hamborg í Þýskalandi en Þjóðverjar gegna formennsku í Eystrasaltsráðinu í ár. Á fundinum var einkum rætt um svæðasamstarf í Norður-Evrópu, hina norðlægu vídd Evrópusambandsins og samstarf milli landanna á svæðinu.
Í ræðu Halldórs Ásgrímssonar kom fram mikilvægi svæðasamtaka í Norður-Evrópu og hinnar norðlægu víddar Evrópusambandsins. Utanríkisráðherra lagði áherslu á að samræma þyrfti verkefni og auka samvinnu svæðastofnana um málefni norðlægu víddarinnar, og sagði mikla möguleika á beinu samstarfi fyrirtækja, félagasamtaka, sveitastjórna og fleiri aðila á svæðinu. Í því samhengi gat utanríkisráðherra þess að Norðurlandasamstarfið hefði rutt brautina fyrir aukið samstarf ríkja við Eystrasalt.
Utanríkisráðherrarnir áttu óformlegan fund í hádeginu þar sem aðallega var rætt um málefni Mið-Austurlanda, en Joschka Fischer, utanríkisráðherra Þýskalands, er nýkominn frá Ísrael og Palestínu þar sem hann leitaðist við að koma á sáttum milli stríðandi fylkinga.
Við lok fundarins undirrituðu ráðherrarnir samkomulag um miðlun geislunarupplýsinga milli landanna.
Yfirlýsingu fundarins er að finna á heimasíðu Eystrasaltsráðsins á slóðinni www.baltinfo.org.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 7. júní 2001.