Hoppa yfir valmynd
7. júní 2001 Matvælaráðuneytið

Viðbrögð við skýrslu Hafrannnsóknastofnunarinnar 07.06.01

Fréttatilkynning


Sjávarútvegsráðuneytið telur að vísindaleg úttekt Hafrannsóknastofnunarinnar á ástandi nytjastofna hér við land sé besta mat sem Íslendingar hafa til að byggja fiskveiðistjórnun á. Það mat er hins vegar ófullkomið eins og fram kemur í skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar sem lögð var fram á þriðjudaginn en þar kom m.a. fram að þorskstofninn hefur verið ofmetinn undanfarin ár og er nú nálægt sögulegu lágmarki. Því hefur sjávarútvegsráðherra ákveðið að:

1. Óska formlega eftir skýringum Hafrannsóknastofnunarinnar á ofmati á stofnstærð þorsks síðustu 4 ár, þar á meðal að greina á milli þátta sem valdið hafa skekkjum, og óvissu. Ennfremur hver eru og hafa verið viðbrögð Hafrannsóknastofnunarinnar og hvaða áhrif þau eiga að hafa á stofnstærðarmat í framtíðinni. Þá er óskað sérstaklega eftir umsögn um áhrif brottkasts.

2. Óska eftir því formlega við Fiskistofu að gerð sé grein fyrir þeim þáttum sem geta haft áhrif á nákvæmni upplýsinga um landaðan afla og ef tiltækt er mat á þeim þáttum, þ.m.t. löndun framhjá vigt, ísun, slæging o.s.frv.

3. Fá utanaðkomandi aðila til að meta forsendur og mat Hafrannsóknastofnunarinnar. Hann verður valin með tilliti til þess að hann sé óháður og hafi ekki komið að málum hér áður, eða hafi önnur tengsl við Hafrannsóknastofnunina eða íslenska fiskveiðistjórnun sem rýrir gildi hans sem utanaðkomandi aðila.

4. Hraða störfum aflareglunefndarinnar.

5. Setja af stað vinnu innan ráðuneytisins til að endurskoða lögin um Hafrannsóknastofnunina. í því felst m.a. að fá tillögu stjórnar stofnunarinnar sem fyrst.

6. Láta athuga hvaða vísindalegur/faglegur grundvöllur er fyrir gagnrýni sem fram hefur komið á störf Hafrannsóknastofnunarinnar.

7. Skipulagt verði sérstakt málþing (public hearing) þar sem almenningi gefst kostur á að fylgjast með og koma á framfæri sjónarmiðum þegar sérfræðingar fara yfir helstu þætti rannsókna og stjórnunar í sjávarútvegi, og valinn hópur manna spyr þá út úr.
Sjávarútvegsráðuneytið
7. júní 2001

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum