Hoppa yfir valmynd
8. júní 2001 Heilbrigðisráðuneytið

2. - 8. júní 2001

Fréttapistill vikunnar
2. - 8. júní 2001



Ráðherra heimsækir heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi eystra

Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, heimsótti í gær (7. júní) heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi eystra, en ráðherra hyggst heimsækja sem flestar heilbrigðisstofnanir á næstunni eftir því sem tækifæri gefst til. M.a. heimsótti hann heilsugæsluna á Akureyri, í Ólafsfirði og á Dalvík og ræddi við starfsmenn á stöðunum. Þá heimsótti ráðherra Háskólann á Akureyri og ræddi við Þorstein Gunnarsson, rektor, og Jón Sigurðsson, yfirmann hjúkrunarsviðs HA. Á Akureyri ávarpaði ráðherra fyrstu alþjóðlegu ráðstefnu iðjuþjálfa, sem haldin er hér á landi. Er hún haldin í tilefni 25 ára afmælis Iðjuþjálfafélags Íslands, en þess má geta að fyrstu iðjuþjálfarnir eru að útskrifast frá Háskólanum á Akureyri um þessar mundir. Ráðstefnan er haldin undir kjörorðunum: Iðja - heilsa - vellíðan.
ÁVARP RÁÐHERRA...

Nýr upplýsingavefur, Rettarheimild.is, stórbætir aðgang almennings að lagagögnum
Nýr upplýsingavefur, s.k. Réttarheimildavefur, hefur verið opnaður. Vefurinn er settur upp að tilstuðlan ríkisstjórnarinnar og er markmiðið með honum að auðvelda aðgang almennings að lagagögnum. Vefurinn er fyrst og fremst hannaður með þarfir almennings í huga og með honum gefst notendum kostur á að leita með öflugri leitarvél í öllum þeim gagnagrunnum sem vefurinn tengir saman. Á vefnum birtast í fyrsta sinn ýmis gögn sem ekki hafa áður verið aðgengileg á Netinu, þ.á.m. ýmsir stjórnvaldsúrskurðir, úrskurðir Félagsdóms o.fl. Á vefnum eru einnig aðgengilegir alþjóðasamningar sem Ísland er aðili að, auk upplýsinga um niðurstöður alþjóðadómstóla. Síðast en ekki síst er á réttarheimildavefnum viðamikið reglugerðasafn sem býður upp á ýmsa leitarmöguleika. T.d. er hægt aðnálgast reglugerðir eftir efnisflokkum, birtingarári eða númeraröð og enn fremur er hægt að fá yfirlit yfir reglugerðir einstakra ráðuneyta.
www.rettarheimild.is>

Samdráttur í starfsemi Landspítala - háskólasjúkrahúss yfir sumartímann
Töluvert verður dregið úr starfsemi á Landspítala - háskólasjúkrahúsi í sumar, eins og jafnan á þessum árstíma, að því er fram kemur á heimasíðu sjúkrahússins. Ástæður fyrir samdrættingum eru sumarleyfi starfsfólks og skortur á fagfólki til starfa. Samkvæmt skipulagi um starfsemi sjúkrahússins í sumar er miðað við að öllum bráðatilfellum verði sinnt. Samdráttur verður mestur á skurðlækningadeildum, lyflækningadeildum, öldrunardeildum og geðdeildum. Að vanda verður gripið til fækkunar rúma á deildum og tímabundinni lokun deilda.
NÁNAR...

Yfirlit landlæknisembættisins um tíðni tilkynningaskyldra sjúkdóma 1997 - 2000
Landlæknisembættið hefur birt á heimasíðu sinni tölur um fjölda tilfella tilkynningaskyldra sjúkdóma á árunum 1997 - 2000. Af samantektinni má m.a. sjá að klamýdíusýkingum hefur fjölgað ár frá ári allt tímabilið. Fjölgunin heldur áfram miðað við fyrstu þrjá mánuði þessa árs og í mars s.l. voru skráð 202 tilfelli, sem er meira en nokkru sinni. Upplýsingar um sjúkdóminn, smitleiðir, einkenni, fylgikvilla greiningu og meðferð er að finna á vef landlæknisembættisins undir upplýsingum um kynsjúkdóma. Á vef landlæknisembættisins eru einnig aðgengilegar klínískar leiðbeiningar um klamýdíu; greiningu, meðferð og eftirlit. Í samantekt landlæknisembættisins yfir tíðni tilkynningaskyldra sjúkdóma kemur einnig fram að sýkingum af völdum salmonellu hefur einnig fjölgað jafnt og þétt á liðnum árum. Árið 1999 voru skráðar sýkingar 173 en voru í fyrra 365 talsins. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs hefur skráðum tilfellum þó heldur fækkað. Sýkingum af völdum kampýlóbakter fer fækkandi.
NÁNAR

...

Framlög til SÁÁ hækka
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur ákveðið að hækka fjárveitingu til SÁÁ vegna sjúkrastofnana um 36 milljónir króna, til samræmis við launahækkanir árin 200 og 2001. Þá hækkar rekstrargrunnur stofnunarinnar um 18. m.kr. á næsta ári. Ráðuneytið hefur á undanförnum árum aukið verulega framlag sitt til stofnunarinnar, eða um 70% frá árinu 1997.
NÁNAR...


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
8. júní 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta