Hoppa yfir valmynd
8. júní 2001 Matvælaráðuneytið

Innganga í IWC júní 2001

Fréttatilkynning


Ísland gerist í dag að nýju aðili að Alþjóða hvalveiðiráðinu (International Whaling Commission), með fyrirvara við svonefndan 0-kvóta vegna hvalveiða í atvinnuskyni sem felur í sér að hvalveiðar eru ekki leyfðar.

Allt frá því að Ísland sagði sig úr Alþjóða hvalveiðiráðinu árið 1992 hafa fjölmörg ríki skorað á Íslendinga að gerast aðilar að ráðinu að nýju. Þar hefur ekki aðeins verið um að ræða ríki sem hlynnt eru sjálfbærum hvalveiðum heldur einnig ríki sem eru andvíg hvalveiðum svo og ríki sem telja sig standa mitt á milli þessara tveggja fylkinga. Af hálfu þessara ríkja hefur verið lögð áhersla á að IWC sé mikilvægur vettvangur í hvalamálum og öll ríki sem telji sig hafa hagsmuna að gæta eigi þess vegna að vera aðilar að ráðinu.

Markmið og tilgangur stofnsamnings Alþjóða hvalveiðiráðsins er að stuðla að eðlilegri vernd hvalastofna þannig að hvalveiðar geti þróast með skipulegum hætti ("to provide for the proper conservation of whale stocks and thus make possible the orderly development of the whaling industry"). Fyrirvarinn sem Ísland gerir við endurinngönguna í ráðið er í fullu samræmi við þetta. Hann er við ákvæði í fylgiskjali samningsins gagnvart svonefndum 0-kvóta vegna hvalveiða í atvinnuskyni.

Ákvæðið um 0-kvóta var samþykkt á ársfundi Alþjóða hvalveiðiráðsins árið 1982 og kom til framkvæmda árið 1986. Það átti að endurskoða, á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar, í síðasta lagi árið 1990. Þeirri endurskoðun er enn ekki lokið.

Staða Íslands innan hvalveiðiráðsins eftir inngönguna verður hin sama og staða Noregs og Rússlands sem eru óbundin af því ákvæði sem Ísland gerir fyrirvara við.

Við úrsögn Íslands úr Alþjóða hvalveiðiráðinu árið 1992 var því lýst yfir af hálfu Íslands að ráðið starfaði ekki lengur eftir stofnsamningi sínum. Það væri orðið að hvalfriðunarráði frekar en hvalveiðiráði. Þótt enn megi telja að langt sé í land, eru þess merki innan ráðsins að stuðningur sé að aukast við að sjálfbærar hvalveiðar verði stundaðar með einhverjum hætti. Í því sambandi er þó rætt um ýmsar takmarkanir sem Ísland telur ónauðsynlegar og ástæðulausar. Það er mat Íslands að betra sé að vera innan ráðsins og hafa áhrif á þróun umræðna þar frekar en að standa utan við og eiga þess ekki kost að taka þátt í umræðum á þessum vettvangi um sjálfbæra nýtingu hvalastofna og önnur mál sem tengjast hvalveiðum.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær hvalveiðar verða hafnar að nýju við Ísland.

Aðildarskjal Íslands var afhent Bandaríkjunum, sem er vörsluríki stofnsamnings Alþjóða hvalveiðiráðsins, í Washington í dag.
Sjávarútvegsráðuneytinu, 8. júní 2001

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum