Íslendingar reiðubúnir að taka við formennsku í Norðurskautsráðinu
Íslendingar eru reiðbúnir að taka að sér formennsku í Norðurskautsráðinu á næsta ári, þegar formennskutímabili Finna lýkur. Þetta kom fram í ræðu sem Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra hélt í Rovaniemi í Finnlandi í dag, 11. júní, á hátíðarfundi sem haldinn var í tilefni 10 ára afmælis umhverfissamstarfs ríkja á Norðurslóðum.
Norðurskautsráðið var sett á fót 1996, en í því eiga sæti ríkin átta sem liggja í kringum norðurskautið: Ísland, Noregur, Svíþjóð, Finnland, Danmörk (Grænland), Kanada, Bandaríkin og Rússland. Auk þess eiga fulltrúar samtaka frumbyggja á Norðurslóðum aðild að ráðinu. Ríkin skiptast á að fara með formennsku og verður formennskutími Íslands 2002-2004 ef boði íslenskra stjórnvalda, sem ríkisstjórnin ákvað nýlega að leggja fram, verður tekið. Segja má að Norðurskautsráðið eigi rætur í umhverfissamstarfi ríkjanna átta, svokölluðu Rovaniemi-ferli, sem hrundið var af stað fyrir 10 árum, en var síðan fellt inn í ramma Norðurskautsráðsins.
Í ræðu sinni sagði umhverfisráðherra að Íslendingar legðu mikla áherslu á Norðurslóðasamstarf í umhverfismálum og auðlindanýtingu. Nefndi hún í því samhengi að skrifstofur tveggja af fimm föstum vinnuhópum Norðurskautsráðsins væru staðsettar á Íslandi, PAME (áætlun um vernd hafsins á norðurslóðum) og CAFF (verndaráætlun fyrir lífríki á norðurslóðum). Á fundinum var kynnt umfangsmikil skýrsla CAFF um líffræðilega fjölbreytni á Norðurslóðum.
Siv sagði að árangur samstarfs á umhverfissviðinu væri mjög mikill og hefði leitt til mikils þekkingarauka á umhverfi Norðurslóða og þeim ógnum sem að því steðja, sem væri nauðsynleg forsenda ábyrgrar stefnumörkunar og aðgerða. Hún sagði að skilaboð Norðurskautsráðsins til leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg á næsta ári væru tvíbent. Annars vegar brynnu mörg helstu umhverfisvandamál heims mjög á íbúum Norðurslóða, jafnvel þótt uppspretta mengunar væri oftast víðs fjarri. Þannig væru áhrif loftslagsbreytinga, þynningar ósonlagsins og mengunar lofts og hafs af völdum þrávirkra lífrænna efna óvíða meiri en á Norðurslóðum. Hins vegar hefðu íbúar Norðurslóða einnig að færa jákvæðari skilaboð til leiðtogafundarins, þar sem samvinna þeirra sýndi að samstarf um vöktun umhverfisins og lausn á umhverfisvandamálum gæti borið góðan ávöxt. Ekki væri vafi á því að viðamikil skýrsla um ástand umhverfis á Norðurslóðum hefði átt þátt í að skriður komst á samningaviðræðum um aðgerðir gegn mengun af völdum þrávirkra lífrænna efna, en skrifað var undir samning þess efnis í Stokkhólmi 23. maí sl.
Fréttatilkynning nr. 7/2001
Umhverfisráðuneytið