Fréttatilkynning 21/2001-ráðstefna í Litháen
,,Konur og lýðræði við árþúsundamót"
Dómsmálaráðherra á ráðstefnu í Litháen
Fréttatilkynning nr. 21/ 2001
Sólveig Pétursdóttir, dómsmálaráðherra, hélt í dag til Litháen þar sem hún mun sækja ráðstefnuna Konur og lýðræði. Um er að ræða framhald af ráðstefnu sem ríkisstjórn Íslands stóð fyrir í október 1999 í Reykjavík undir yfirskriftinni ,,Konur og lýðræði við árþúsundamót". Fjallað verður um jafnréttismál í lýðræðisþjóðfélögum, en yfir 500 manns frá 13 ríkjum hefur verið boðið að taka þátt í ráðstefnunni. Dómsmálaráðherra stýrir á ráðstefnunni vinnuhópi um konur og leiðtogahlutverkið, og tekur þátt í pallborðsumræðum um verslun með konur ásamt ráðherrum frá hinum Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum.
Ráðstefnan hefst á morgun en lýkur 17. júní. Með ráðherra í för eru Björg Thorarensen skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu og Ingvi Hrafn Óskarsson aðstoðarmaður ráðherra.
Nánari upplýsingar veitir Ingvi Hrafn Óskarsson í síma: 863-2365.
Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
14. júní 2001.
14. júní 2001.