Hoppa yfir valmynd
15. júní 2001 Matvælaráðuneytið

Samanburður á starfsumhverfi sjó- og landvinnslu. 15.06.01

Fréttatilkynning
15. júní 2001


Þann 24. ágúst 1999 skipaði sjávarútvegsráðherra Árni M. Mathiesen nefnd undir formennsku Gunnars I. Birgissonar alþingismanns, sem fékk það hlutverk að gera samanburð á starfsumhverfi sjó- og landvinnslu. Aðrir nefndarmenn voru skipaðir Guðrún Lárusdóttir, framkvæmdastjóri og Elínbjörg Magnúsdóttir, varformaður verkalýðsfélags Akraness.

Meirihluti nefndarinnar stendur að þessu áliti en Guðrún Lárusdóttir skilar séráliti.

Nefndin kallaði á sinn fund ýmsa sérfróða menn um sjávarútvegsmál. Einnig gekkst hún fyrir ítarlegri könnun sem var gerð meðal 2200 sjómanna á umfangi og ástæðum brottkasts. Í tillögum sínum leggur nefndin áherslu á fá en mikilvæg atriði er falla undir verksvið hennar.

Helstu niðurstöður meirihluta nefndarinnar:

1. Aðgengi að hráefni hefur áhrif á samkeppnisstöðuna þannig að þeir sem ráða yfir veiðiheimildum eru í betri stöðu en þeir sem þurfa að kaupa að allt sitt hráefni. Miða tillögur nefndarinnar m.a. að því að auka framboð hráefnis.

- Samkvæmt "brottkastskönnun" nefndarinnar er ljóst að brottkast er stundað á Íslandsmiðum sem er óviðunandi. Flestir sjómenn töldu að stærsti hluti þess værir sk. undirmálsfiskur. Tillögur nefndarinnar miða að því að hann komi að landi í stað þess að vera hent. Því er lögð til breyting á reglugerð um undirmálsfisk. Meginatriði eru þessi.
a. Leyfilegur hluti undirmálsfiskjar í hverri veiðiferð verði 10% í stað 7% nú.
b. Undirmálsfiskur teljist 35% til aflamarks í stað 50% nú.

- Útflytjendum á óunnum fiski er gert skylt að bjóða hann rafrænt til sölu á innlendum fiskmarkaði áður enn hann er fluttur úr landi.
- Lögð er áhersla á að styrkja rafræn viðskipti með fiskafurðir og hráefni.
- Hvalveiðar verði hafnar strax, en hvalir eru í harðri samkeppni við manninn um nýtingu sjávarauðlinda.

2. Í dag er kvótabundinn fiskur ekki vigtaður með samræmdum hætti. Vigtun er einn af lykilþáttum í aflamarkskerfinu til ákvörðunar aflamarks og nýtingar í vinnslu. Í þessu sambandi er lagt til að:

- Afli sé vigtaður inn á vinnslulínur frysti- og fullvinnsluskipa. Gefin sé aðlögun að slíkum breytingum.
- Reglum um ís í keyptum afla sé breytt úr því að vera fastur 3% frádráttur í allt að 7% allt eftir aðstæðum á hverjum stað.

Helstu niðurstöður minnihluta nefndarinnar.

Guðrún Lárusdóttir hefur tekið fullan þátt í vinnu hennar, en lýsir í séráliti sínu, sig andvíga eftirfarandi tillögum meirihlutans:

· Tillögu um að skylt verði að vigta afla inn á vinnslulínur frystitogaranna. Guðrún telur að hér sé um að ræða milljóna kostnað fyrir hvert skip og mjög íþyngjandi fyrir sjóvinnsluna.
    · Tillögu um að skylt verði að bjóða ( rafrænt ) til sölu á íslenskum fiskmarkaði allan fisk sem flytja á úr landi í gámum og /eða skipum. Guðrún telur þetta hömlur á eðlilegan ákvörðunarrétt útgerðaraðila.

    Hvert stefnir í íslenskum sjávarútvegi.

    Á fund nefndarinnar hafa komið margir sérfræðingar og framámenn í sjávarútvegi. Hér eru samandregin nokkur áhersluatriði af þessum fundum:

    · Þróunin er í átt að stærri og öflugri fyrirtækjum með fjölþætta starfsemi, í veiðum, vinnslu og markaðsstarfsemi. Þessi fyrirtæki ráða mörg hver yfir möguleika á bæði sjó- og landvinnslu.
    - Frelsi fyrirtækjanna til að ráðstafa hráefninu í þá vinnslu sem á hverjum tíma gefur mesta arðsemi fyrir þau. Krafan er um aukna arðsemi og aðlögun í öllum framleiðsluþáttum m.t.t. ástands markaða á hverjum tíma. Sjávarútvegurinn ætti að búa við jöfn og almenn skilyrði, þannig að ekki sé þörf á stöðugum sértækum afskiptum stjórnvalda. Því er einnig haldið fram af viðmælendum að mörg fyrirtæki séu alls ekki að hámarka arðsemi sína, þrátt fyrir yfirlýsingar forráðamanna þeirra.
    - Því er haldið fram að nýr þáttur landvinnslu verði úrvinnsla afurða frysti- og vinnsluskipa. Bent er á yfirburði þessara skipa í arðsemi og við ákveðnar veiðar. Útflutningur á ferskum fiski hefur einnig aukist en slík vinnsla er oft í litlum og sérhæfðum fyrirtækjum.

    Lokaorð:
    Hlutverk nefndarinnar var að gera samanburð á núverandi starfsumhverfi sjó- og landvinnslu. Tillögur nefndarinnar eru almenns eðlis og miða að því að bæta núverandi vinnubrögð í sjávarútvegi, sem eins og önnur mannanna verk þurfa að vera í stöðugri þróun. Það er von nefndarmanna að sátt geti tekist um tillögurnar og framkvæmd þeirra.
    Sjávarútvegsráðuneytið 15. júní, 2001


    Hafa samband

    Ábending / fyrirspurn
    Ruslvörn
    Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum