Hoppa yfir valmynd
19. júní 2001 Innviðaráðuneytið

Menntamálaráðuneyti og HÍ - samningur um tungutækni

Samningur um þjónustu vegna tungutækniverkefna undirritaður

Fréttatilkynning frá Menntamálaráðuneyti 19. júní 2001
Mynd:Frá undirritun samnings vegna tungutækniverkefna
Frá undirritun samnings vegna tungutækniverkefna

Björn Bjarnason, menntamálaráðherra og Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands undirrita í dag samning um þjónustu Háskóla Íslands vegna tungutækniverkefna.

Tungutækni (e. language technology) snýst um undirbúning og smíði ýmis konar forrita sem vinna með tungumál og tengir því saman málfræði, upplýsinga- og tölvutækni og iðnaðarstarfsemi. Mikilvægur þáttur í þessum tengslum er notkun tölvutækni til að auðvelda mönnum að nota tungumálið. Þar má nefna talgervla, forrit sem skilja tal, hugbúnað til símsvörunar, leiðréttingar á stafsetningu og málfari, þýðingarforrit, tölvuorðabækur af ýmsu tagi og hjálpartæki handa fötluðum.

Á vegum menntamálaráðuneytisins er starfandi sérstök verkefnisstjórn undir forystu Ara Arnalds verkfræðings, sem hefur umsjón með framkvæmd áætlunar um tungutækni. Verkefnisstjóri er Rögnvaldur Ólafsson eðlisfræðingur. Íslensk tungutækni er skammt á veg komin en ríkisstjórnin telur brýnt að efla hana og hefur veitt til þess fé á fjárlögum.

Háskóli Íslands hefur ákveðið að koma á þverfaglegu framhaldsnámi í tungutækni. Markmiðið með náminu er að mennta nemendur sem eru hæfir til þess að vinna að þróun tungutækni fyrir íslenska málsamfélagið, taka að sér störf á þessu sviði í íslenskum upplýsingatæknifyrirtækjum og miðla þekkingu sinni til annarra. Unnið verður að rannsóknum á tungutækni fyrir íslenska málsamfélagið með sérstakri áherslu á lausnir sem gætu nýst öðrum fámennum málsamfélögum.

Náðst hefur samkomulag milli Háskóla Íslands og verkefnisstjórnar menntamálaráðuneytis um þjónustu og faglega ráðgjöf vegna tungutækni. Háskólinn mun á samningstímanum veita verkefnisstjórn um tungutækni þjónustu á eftirfarandi sviðum:


      Ráðgjöf varðandi einstök þróunarverkefni sem verkefnisstjórnin hyggst láta vinna svo sem þróun texta- og málgrunna, staðla og verklag, vélrænar þýðingar og fleira.

      Ráðgjöf varðandi erlend verkefni og erlent samstarf með sérstakri áherslu á norræn verkefni og ESB verkefni.

      Kynna nám í tungutækni fyrir fyrirtækjum og stuðla að samstarfi við þau um kennslu og rannsóknir á því sviði.


Verkefni þessi verða útfærð nánar og tímasett í samráði við verkefnisstjórn í tungutækni.


Menntamálaráðuneytið, 19. júní 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta