Hoppa yfir valmynd
21. júní 2001 Heilbrigðisráðuneytið

16 - 22. júní 2001

Fréttapistill vikunnar
16 - 22. júní 2001



Bætur til þeirra sem hafa smitast af lifrarbólgu C

Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, hefur falið Ríkislögmanni að sjá um uppgjör bóta til sjúklinga sem sýkst hafa af lifrarbólgu C við blóðgjöf hér á landi fyrir október 1992. Helgast dagsetningin af því að skimun meðal blóðgjafa gegn lifrarbólgu C hófst hér á landi í september 1992. Gert er upp við sjúklinga á grundvelli heimildar í fjárlögum fyrir árið 2001 og ákveður fjármálaráðherra bæturnar í samráði við heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra. Talið er að fáir hafi smitast af lifrarbólgu C við blóðgjöf. Bótafjárhæðin og ákvörðun bóta byggist alfarið á ákvæðum laga um sjúklingatryggingar nr. 111/2000, en þar segir m.a. að bætur skuli greiðast ef virt tjón nemur 50 þúsund krónum eða hærri fjárhæð. Hámarksbætur geta samkvæmt lögunum orðið fimm milljónir króna.

Verkefnisstjórn um bætt heilsufar kvenna
Jónína Bjartmarz, þingmaður og formaður heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis verður formaður verkefnisstjórnar sem falið verður að meta og hrinda í framkvæmd tillögum nefndar sem áður hafa verið kynntar og varða heilsufar kvenna. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra tilkynnti um skipun verkefnisstjórnarinnar 19. júní sl. Nefnd sem skipuð var af fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Ingibjörgu Pálmadóttur, kynnti á liðnu ári skýrslu með álitsgerð og tillögum um það hvernig bæta megi heilsufar kvenna og mun verkefnisstjórnin byggja starf sitt á tillögum hennar. Skýrsla nefndarinnar er aðgengileg á heimasíðu ráðuneytisins, á pdf. formi.
Heilsufar kvenna. Álit og tillögur nefndar um heilsufar kvenna. 2000, apríl. (1.34 MB)

Auka allsherjarþing um alnæmisvandann í lok júní
Sameinuðu þjóðirnar hafa boðað til auka allsherjarþings um alnæmisvandann, HIV/AIDS, í New York, 25. - 27. júní nk. Á Alþjóðaheilbrigðisþinginu sem haldið var í Genf um miðjan maí sl. lýsti Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna því yfir, að stofnaður yrði sérstakur Alheimssjóður helgaður baráttunni gegn alnæmi, Global AIDS and Health Fund. Ríkisstjórn Íslands samþykkti 18. júní sl. tillögu Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um 15 milljóna króna framlag í Alheimssjóðinn. Þann 5. júní sl. voru 20 ár liðin frá því að fyrst var greint frá þeim sjúkdómi sem síðar hlaut nafnið alnæmi. Á heimasíðu Landlæknisembættisins hafa verið teknar saman margvíslegar upplýsingar um alnæmi. Upplýsingar um allsherjarþingið í New York eru aðgengilegar á vef Sameinuðu þjóðanna.

Ráðherra heimsækir heilbrigðisstofnun Suðurnesja
Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, heimsótti í vikunni starfs-og stjórnarmenn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Ráðherra kynnti sér rekstur og starfsemi sjúkrahúss og heilsugæslu og skoðaði nýbyggingu D-álmu sjúkrahússins. Þá ræddu ráðherra og stjórnendur framtíðarrekstur og uppbyggingu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.

Skýrsla um sjálfsvíg ungs fólks á Íslandi
Út er komin hjá landlæknisembættinu skýrsla um sjálfsvíg ungs fólks á Íslandi, eftir Wilhelm Norðfjörð, sálfræðing. Skýrslan er byggð á niðurstöðum rannsóknar sem Wilhelm vann þar sem borin voru saman sjálfsvíg á Austurlandi og höfuðborgarsvæðinu árin 1984-1991. Í maí s.l. kynnti starfshópur á vegum landlæknisembættisins tillögur sínar um eflingu forvarna gegn sjálfsvígum á Íslandi og átti Wilhelm sæti í þeim hópi. Skýrsla Wilhelms er til sölu hjá landlæknisembættinu og er einnig aðgengileg á heimasíðu embættisins.

Menningarheimar mætast
Landlæknisembættið og Landspítali - háskólasjúkrahús hafa gefið út upplýsingarit fyrir heilbrigðisstarfsfólk um ýmsa þætti sem lúta að trú, arfleifð og menningu mismunandi hópa og geta haft áhrif á samskipti og meðferð. Ritið er aðgengilegt á pdf.formi á veflandlæknisembættisins og á vef Landspítala - háskólasjúkrahúss.
NÁNAR..

Samtök um kvennaathvarf opna heimasíðu - kennaathvarf.is
Samtök um kvennaathvarf opnuðu formlega nýja heimasíðu, kvennaathvarf.is, 19. júní. Þar er að finna helstu upplýsingar um starfsemi kvennaathvarfsins og þjónustuna sem þar er veitt. Einnig er þar fjallað um ofbeldi og ýmsar birtingarmyndir þess og reynt að varpa ljósi á ýmsar spurningar sem leita á þolendur ofbeldis. Á forsíðu vefjarins er vísað í skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO, þar sem fram kemur að ein af hverjum fimm konum hefur orðið fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi um æfina og að ofbeldi gegn konum sé meðal alvarlegustu heilbrigðisvandamálum heims.
http://www.kvennaathvarf.is

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
22. júní 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta