Hoppa yfir valmynd
22. júní 2001 Dómsmálaráðuneytið

Ávarp dómsmálaráðherra við kynningu Almannavarna ríkisins á heimasíðu sinni og heimilisáætlun

Ávarp dómsmálaráðherra við kynningu Almannavarna ríkisins á heimasíðu sinni og heimilisáætlun 22. júní 2001



Góðir gestir

Nú er rétt rúmt ár síðan að jarðskjálftar skóku sunnanvert landið. Að mörgu leyti fór betur en á horfðist því slys voru tiltölulega lítil þótt eignatjón hafi verið verulegt. Sjálfsagt má að einhverju leyti kalla heppni að svo vel fór að þessu leyti, en eins og menn þekkja reið fyrri skjálftinn yfir þann 17.júní þegar margt fólk var samankomið utandyra eða inni í vel byggðum samkomuhúsum.

Samkvæmt skýrslu Rannsóknarmiðstöðvar Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði um jarðskjálftann á síðasta ári fór þó betur en við mátti búast meðal annars vegna forvarnaraðgerða sem fyrirtæki, sveitarfélög og einstaklingar gripu til á undanförnum árum. Þetta minnir okkur á hversu mikilvægt er að við séu sífellt vakandi fyrir hættum sem leynast í umhverfinu og að við tökum mið af því jafnt í löggjöf og stjórnarframkvæmd.

En þetta minnir okkur einnig á að forvarnir eru ekki aðeins verkefni hins opinbera. Það er ekki síður mikilvægt að einstaklingar og fjölskyldur gæti þess að tryggja öryggi sitt sem best og séu því viðbúin að bregðast við þeim áföllum sem riðið geta yfir – oft án nokkurs fyrirvara, eins og dæmin sanna.

Íslendingar búa við viðvarandi umhverfisvá af ýmsum toga. Staðsetning eyjunnar okkar á hnettinum gerir líf okkar undirorpið sterkum, og oft ófyrirsjáanlegum, náttúruöflum. Því er þeim mun brýnna fyrir okkur að þekkja hætturnar og búa okkur undir að takast á við þær.

Hér í dag kynna Almannavarnir ríkisins nýja heimsíðu sína, þar sem meðal annars er að finna svokallað heimilisáætlun sem aðstoðar fólk við að undirbúa sig fyrir hættuástand. Það felst í því að átta sig á hættunum sem til staðar eru, grípa til forvarna og gera áætlanir um hvernig bregðast skuli við, þegar á reynir. Þetta er gott framtak hjá Almannavörnum ríkisins sem ég vona að eigi eftir að vekja almenning frekar til vitundar um öryggismál og forvarnir.

Ég þakka fyrir

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta