AUGLÝSING um aukaleik Íslenskra getrauna.
AUGLÝSING
um aukaleik Íslenskra getrauna.
Ráðuneytinu hefur borist tilkynning um aukaleik Íslenskra getrauna undir nafninu Sigur-inn, aukaleikur Íslenskra getrauna um Formúlu 1 keppnina í samræmi við 3. tl. 4. gr. og 36. gr. reglugerðar fyrir Íslenskar getraunir nr. 543/1995. Leik þennan á að starfrækja frá 1. mars til og með 20. október 2001.
Ráðuneytið samþykkir að leikur þessi verði starfræktur og að um hann gildi reglur þær sem Íslenskar getraunir hafa gefið út. Fylgja þær hér með sem fylgiskjal I.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 2. mars 2001.
F. h. r.
Jón Thors.
Jón Thors.
Fanney Óskarsdóttir.
Fylgiskjal I.
Aukaleikur Íslenskra getrauna um Formúlu 1.
Sigurinn.
SpilareglurSigurinn.
1 Almennar reglur.
1.1 "Sigurinn" er samheiti yfir getraunaform þar sem þátttakandinn giskar á sigurvegarann í Formúlu 1 keppnum. Hver keppni á "Sigrinum" er sjálfstæð getraun.
1.2 "Sigurinn" er einungis hægt að spila í sölukerfi Íslenskra getrauna á netinu.
1.3 Getraunatímabil er frá því sala hefst í ákveðnum getraunaleik og þar til allt að einni mínútu áður en viðkomandi keppni fer fram. Upplýsingar um áætlaðan keppnisdag, getraunatímabil, getraunaumferð og lokunartíma skulu vera aðgengilegar fyrir þátttak-endur.
1.4 Getraunaumferð er sá dagur eða dagar sem keppnin fer fram á, hér löglegir keppnis-dagar. Flytjist keppnin út fyrir þessa daga, fellur getraunin niður og þátttakendur fá endurgreidda ágiskun sína.
2 Þátttökuform, greiðsla vinningar og ógildingar.
2.1 Verð hverrar einingar í "Sigrinum" er 20 kr. Þátttakandi getur valið sér minnst 5 og mest 600 einingar (100 – 12.000 kr.). Þátttökugjald skal hlaupa á jöfnum 100 krónum.
2.2 Greiðsla fyrir þátttöku fer fram með greiðslukorti. Vinningar eru eingöngu færðir á sama greiðslukort og greiddi fyrir þátttöku.
2.3 Íþrótta- og ungmennafélög sem og aðrir sem hafa umboð frá Íslenskum getraunum geta selt "Sigurinn" til þátttakenda með sérstöku söluforriti á netinu. Greiðsla fer fram með greiðslukorti þátttakenda eða greiðslukorti umboðsaðila. Vinningar eru færðir á greiðslu-kortið sem greiddi fyrir þátttökuna eða á bankareikning þátttakanda.
2.4 Þátttakendur eru ábyrgir fyrir því að gefa upp réttan bankareikning, enda komi þær upplýsingar greinilega í ljós á kvittun.
2.5 Vinningar eru að jafnaði greiddir út daginn eftir að keppninni, sem ágiskunin tekur til, lýkur. Ef vafi kemur upp um úrslit, þá hafa Íslenskar getraunir rétt til að fresta vinningsútborgun þar til kærufrestur er útrunninn.
2.6 Aðeins er hægt að skila inn þátttöku þegar móðurtölvan er opin.
2.7 Allar þátttökukvittanir eru geymdar miðlægt í móðurtölvunni en þátttakendur og umboð geta prentað út þessar kvittanir. Ef mismunur er á þátttökukvittun í móðurtölvu og prentaðri kvittun, þá gildir sú í móðurtölvunni. Á þátttökukvittuninni er öryggisnúmer sem er sérstakt fyrir hverja kvittun.
2.8 Þátttaka er aðeins gild í því formi og í því umfangi sem skráð er í móðurtölvunni.
2.9 Vilji þátttakandi afturkalla ágiskun sína sem hann keypti hjá umboði, verður hann að gera það hjá sama umboði og hann skilaði henni inn til, sama dag og innan 15 mínútna frá því hann keypti hana. Seinustu 15 mínúturnar þar til keppnin hefst, minnkar þessi tími niður í minnst 1 mínútu. Aldrei er hægt að afturkalla ágiskun eftir að keppnin sem hún tekur til er hafin.
2.10 Þátttakandi ber ábyrgð á að þátttökukvittunin eigi við um rétta umferð, fjöldi þeirra sé réttur og sé í samræmi við þær ágiskanir sem hann óskaði eftir.
2.11 Hvorki félagið né umboð eru skaðabótaskyld vegna tjóns sem þátttakandi verður fyrir vegna þess að félagið eða umboð vöktu ekki athygli hans á skyssu sem hann gerði í sambandi við ágiskunina.
3 Úrslit og endurgreiðslur.
3.1 Vinningur fæst aðeins fyrir rétta ágiskun.
3.2 Rétt ágiskun telst vera sú, sem skipuleggjandi keppninnar lýsir sem sigurvegara eftir þeim keppnisreglum sem þar gilda.
3.3 Ef giskað hefur verið á ákveðinn keppanda í "Sigrinum" og hann mætir ekki til leiks í þeirri keppni, sem getraunin tekur til, fellur þátttaka niður á viðkomandi keppanda og er þá þátttökugjald endurgreitt á stuðlinum 1,00. Mæti aðeins 2 keppendur til leiks, skal öll getraunin felld niður og hún öll endurgreidd á stuðlinum 1,00.
3.4 Sé keppni felld niður af einhverjum orsökum s.s. vegna veðurs, skal endurgreiða alla þátttöku í viðkomandi getraun á stuðlinum 1,00.
3.5 Verði úrslit í keppni sem er á "Sigrinum", þannig að fleiri en einn ágiskunarkostur teljist réttur, skal umreikna vinningsstuðla með tilliti til fjölda réttra ágiskana.
3.6 Keppni í "Sigrinum" telst hafa lokið með þeim úrslitum sem fyrir lágu við lok getraunaumferðar. Úrslit sem fást t.d. eftir kæru, gilda ekki.
4 Útreikningur stuðla og vinningsupphæða.
4.1 Í "Sigrinum" eru notaðir breytilegir stuðlar. Breytilegur stuðull merkir að hann umreiknast í hvert sinn sem ágiskun er skilað inn.
4.2 Breytilegur stuðull reiknast þannig að vinningsprósenta (V) er margföldið með T/U, þar sem U er upphæð í krónum sem greidd er fyrir viðkomandi ágiskun og T er heildar-upphæð í getrauninni þegar útreikningur fer fram (V x T/U). Stuðlar eru reiknaðir með tveimur aukastöfum skv. almennri reglu.
4.3 60% af heildarsölu skal varið í vinninga.
4.4 Endanlegir stuðlar til ákvörðunar á vinningi, eru þeir stuðlar sem eru reiknaðir skv. 4.2 eftir að sölu hefur verið lokað fyrir viðkomandi keppni.
4.5 Ef útreiknaður stuðull skv. 4.2 er lægri en 1,00 þá gildir stuðullinn 1,00.
4.6 Vinningsupphæð fyrir rétta ágiskun fæst með því að margfalda vinningsstuðul get-raunarinnar með þátttökugjaldinu og er vinningsupphæð hækkuð eða lækkuð í næstu heilu krónu skv. almennri reglu.
4.7 Ef enginn þátttakandi giskar á rétt úrslit, greiðast engir vinningar út.
4.8 Félagið sér um að birta endanlegar vinningsupphæðir á netinu.
5 Kærur vegna vangreiddra vinninga.
5.1 Þátttakandi sem telur sig ekki hafa fengið réttmætan vinning eða ranga vinningsupphæð verður að senda inn skriflega kæru til félagsins.
5.2 Kæra á að hafa borist skrifstofu félagsins innan fjögurra vikna frá viðkomandi getrauna-umferð.
5.3 Kæru sem berst eftir að kærufrestur er liðinn eða nauðsynlegar upplýsingar vantar til að hægt sé að finna ágiskunina, er hafnað.
5.4 Að öðru leyti eru kærur meðhöndlaðar skv. reglugerð Íslenskra getrauna nr. 543 frá 1995.
6 Gildistími.
6.1 Spilareglur þessar eru útgefnar af Íslenskum getraunum, skv. reglugerð um Íslenskar getraunir nr. 543 frá 13. október 1995 og gilda frá 1. mars 2001 – 20. október 2001.
Reykjavík, 26. febrúar 2001.
Stefán Snær Konráðsson stjórnarformaður.