Opinber heimsókn efnahags- og orkumálaráðhera Ungverjalands
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 12/2001
Efnahags- og orkumálaráðherra Ungverjalands, dr. Matolcsy György er staddur hér á landi í opinberri heimsókn ásamt hópi embættismanna í boði iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Tilgangurinn með heimsókninni er að kynna sér jarðhitanýtingu á Íslandi, bæði til raforkuframleiðslu, húshitunar, jarðhitaræktunar og annarra nota eins og heilsubaða.
Ungverjaland er eitt helsta jarðhitasvæði á meginlandi Evrópu og þar hefur jarðhiti verið nýttur um langa hríð en þó mest til baða og heilsuræktunar.
Hafa Ungverjar áhuga á að efla samstarf við Íslendinga á þessu sviði á næstu árum, en fyrir 11 árum unnu íslensk fyrirtæki í samstarfi við ungverskt fyrirtæki að hagkvæmniathugun á gerð hitaveitu í sjö bæjum í Ungverjalandi, en sú áætlun hefur ekki enn komið til framkvæmda.
Hinir ungversku gestir munu skoða helstu jarðhitamannvirki hér á landi og ræða við forráðamenn þessara fyrirtækja. Auk þess munu þeir skoða Garðyrkjuskólann að Reykjum og Heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði. Þeir munu dveljast hér á landi til fimmtudagsins 12. júlí.
(Hafi fjölmiðlar áhuga á að ræða við hina ungversku gesti er þeim bent á að hafa samband við Atla Frey Guðmundsson, skrifstofustjóra í viðskiptaráðuneytinu í síma GSM 8964465.)
Reykjavík, 9. júlí 2001.