Ný reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum .
Ný reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum
Fréttatilkynning
nr. 23/ 2001
Dómsmálaráðherra hefur að fengnum tillögum ríkissaksóknara gefið út nýja reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim. Í reglugerðinni er fjallað um viðurlög við brotum sem lögreglustjóra er heimilt að ljúka með sektargerð og varða sekt allt að 100 þús. kr. auk sviptingar ökuréttar þar sem það á við. Með reglugerðinni verða ýmsar breytingar á tilhögun sekta og sektafjárhæða vegna umferðarlagabrota sem stefna einkum að því að þyngja refsingu vegna þeirra, bæði vegna verðlagsþróunar en fyrst og fremst vegna endurskoðaðs mats á refsinæmi brotanna. Í meginatriðum eru breytingarnar þríþættar:
- Sektafjárhæðir eru einfaldaðar þannig að þær standa annað hvort á hálfum eða heilum tug þúsunda króna, þ.e. 5.000 kr., 10.000 kr., 15.000 kr., o.s.frv. Á heildina litið leiðir þetta til um 50% hækkunar á sektum þar sem fjárhæð sektar er að jafnaði hækkuð upp í þessi viðmið frekar en að lækka hana.
- Sérstök áhersla er lögð á að hækka sektir vegna svokallaðra hættubrota í umferðinni, t.d. vegna hraðaksturs og ölvunaraksturs. Þannig má nefna að sekt fyrir
brot vegna 101 - 110 km/klst. ökuhraða á 50 km vegi hækkar úr 30 þús. kr. í 50 þús. kr.,
brot vegna 111 - 120 km/klst. hraða á 60 km vegi hækkar úr 25 þús. kr. í 50 þús. kr.,
brot vegna 131 - 140 km/klst. hraða á 70 km vegi hækkar úr 25 þús. kr. í 60 þús. kr.,
brot vegna 141 - 150 km/klst. hraða á 80 km vegi úr 25 þús. kr. í 60 þús. kr. og
brot vegna 151 - 160 km/klst. hraða á 90 km vegi úr 25 þús. kr. í 60 þús. kr.
- Þá hækkar lægsta sekt fyrir ölvunarakstur (áfengismagn 0,50 - 0.60 o/oo áfengismagn í blóði) úr 30 þús. kr. í 50 þús. kr. og hæsta sekt (áfengismagn í blóði 1, 20 - 1,50 o/oo) hækkar úr 60 þús. kr. í 100 þús. kr.
- Framvegis verður ekki heimilt að ljúka með sektargerð lögreglustjóra málum vegna ýmissa alvarlegra brota á umferðarlögunum, heldur munu þau leiða til útgáfu ákæru og höfðunar refsimáls fyrir dómstólum. Heimild til að ljúka hraðabroti með sektargerð lögreglustjóra takmarkast framvegis við hámark 80 km/klst. hraða umfram hraðamörk í stað 110 km/klst.samkvæmt gildandi reglugerð, þ.e. 30 km/klst. minni ökuhraða en áður. Við ölvunarakstur takmarkast heimildin við 1,50 o/oo áfengismagn í blóði ökumanns samkvæmt nýju reglunum sem er óbundið samkvæmt gildandi reglugerð.
Breytingar hafa ekki orðið á fjárhæð sekta vegna umferðarlagabrota frá árinu 1998 en þá voru sektir hækkaðar verulega frá því sem áður var. Þær breytingar sem nú hafa verið ákveðnar taka m.a. mið af tillögum starfshóps sem dómsmálaráðherra skipaði til að fara yfir umferðarlöggjöfina til þess að auka umferðaröryggi, en hópurinn lauk störfum í febrúar mánuði 2001. Taldi starfshópurinn m.a. að sektir fyrir alvarleg umferðarlagabrot þyrfti að hækka verulega, enda sýndu rannsóknir að háar sektir virtust hafa veruleg áhrif á hegðun ökumanna.
Hin nýja reglugerð mun taka gildi 1. ágúst næstkomandi. Hún er birt í heild sinni á heimasíðu ráðuneytisins.
Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
17. júlí 2001.
17. júlí 2001.