Tilraun með nýtt stjórnunarform í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ
Til bæjarstjórnar Mosfellsbæjar
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar fór þess á leit að menntamálaráðherra veiti heimild, með vísan í 53. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1995, til tilraunar með nýtt stjórnunarform í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ.
Menntamálaráðuneytið fór yfir öll innsend gögn um fyrirhugaða stjórnunartilraun og hélt sérstakan fund í ráðuneytinu með fyrirhuguðu þriggja manna stjórnunarteymi Lágafellsskóla.
Menntamálaráðuneytið setur það skilyrði fyrir tilraun með nýtt stjórnunarform að ávallt sé ljóst gagnvart öllum aðilum hver sé forsvarsmaður og fyrsti aðili skólans, þ.m.t. ráðuneytinu og stofnunum skólakerfisins.
Að þessum skilyrðum fullnægðum heimilar menntamálaráðherra bæjarstjórn Mosfellsbæjar með vísan í 53. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1995 að gera tilraun með nýtt stjórnunarform í Lágafellskóla í Mosfellsbæ, til næstu þriggja ára frá skólaárinu 2001-2002 að telja. Bæjarstjórn Mosfellsbæjar fær því undanþágu frá ákvæðum laga og reglugerða um fyrirkomulag skólastjórnunar í grunnskóla.
Ráðuneytið óskar eftir því að fá staðfesta skólanámskrá Lágafellskóla ár hvert á tilraunatímabilinu.
Fyrir lok tilraunatímabilsins mun menntamálaráðuneytið gera úttekt á tilrauninni áður en ákvörðun er tekin um áframhaldandi undanþágu frá lögum um grunnskóla, er lúta að stjórnskipulagi skóla.
(Júlí 2001)