Heimsókn umhverfisráðherra til Kanada til þess að kynna sér málefni þjóðgarða
Dagana 29. júlí til 3. ágúst verður Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra í Kanada í boði David Anderson umhverfisráðherra Kanada að kynna sér málefni þjóðgarða þar í landi. Heimsóttir verða fjórir þjóðgarðar: Pacific Rim á Vancuver eyju á vesturströnd Kanada, hinir þekktu og fjölsóttu Jasper og Banff í Klettafjöllunum og að síðustu Gros Morne á Nýfundnalandi. Kanadamenn hafa um langt skeið verið framsæknir á sviði þjóðgarða. Árið 1885 stofnuðu þeir fyrsta þjóðgarðinn, Banff, og í dag eru þjóðgarðar Kanada 39 talsins. Kanada hefur um árabil verið leiðandi ríki í alþjóðlegu samstarfi á sviði umhverfismála og má þar nefna samninginn um líffræðilega fjölbreytni og heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Þjóðgarðar eru mikilvægir í viðleitni Kanadastjórnar til verndunar náttúru landsins og tegunda í hættu eins og bjarndýra, úlfa og hjartardýra. Þjóðgarðar í Kanada draga að sér mikinn fjölda ferðamanna og skipta þeir því mjög miklu í efnahagslífi landsins. Íslendingar geta lært afar margt af Kanada í uppbyggingu þjóðgarða og stefnumörkun þeirra, en nýlega var stofnaður þjóðgarðurinn Snæfellsjökull og framundan er stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, stærsta þjóðgarðs í Evrópu. Þess er vænst að boð umhverfisráðherra Kanada komi að gagni við uppbyggingu og starfrækslu þjóðgarða hér á landi. Með för í umhverfisráðherra Sivjar Friðleifsdóttur til Kanada eru, Árni Bragason, forstöðumaður Náttúruverndar ríkisins og Einar Sveinbjörnsson, aðstoðarmaður umhverfisráðherra.
Fréttatilkynning nr. 11/2001
Umhverfisráðuneytinu