Nr. 14/2001 - Vandi í sauðfjárframleiðslu vegna rekstrarerfiðleika sumra sláturleyfishafa
Fréttatilkynning frá landbúnaðarráðuneytinu nr. 14/2001
Sá vandi sem kominn er upp vegna rekstrarerfiðleika sumra sláturleyfishafa var ræddur í ríkistjórn. Samstaða var um að skipa starfshóp til að fjalla um þann vanda sem sauðfjárframleiðslan stendur frammi fyrir. Í framhaldi af því hefur landbúnaðarráðherra skipað eftirtalda aðila í starfshóp og falið þeim eftirfarandi verkefni:
A. að greina stöðu og horfur í búfjárslátrun og gera tillögur að framtíðarfyrirkomulagi þar sem fyllstu hagkvæmni er gætt.
B. að gera tillögur um fjármögnun birgða og lækkun vaxtakostnaðar.
C. að tryggja öllum sauðfjárbændum slátrun fyrir sitt fé og leita leiða til flutningsjöfnunar til þeirra framleiðenda sem þurfa að sækja slátrun um langan veg.
Í starfshópnum eiga sæti Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri Sauðárkróki, sem verður formaður hans, Theodór Bjarnason, forstjóri Byggðastofnunar, Ari Teitsson formaður Bændasamtaka Íslands, Ingi Már Aðalsteinsson, formaður sambands sláturleyfishafa, Steinþór Skúlason, varaformaður sambands sláturleyfishafa, Jón Magnússon, viðskiptafræðingur í fjármálaráðuneytinu og Guðmundur Sigþórsson, skrifstofustjóri í landbúnaðarráðuneytinu.
Vegna takmarkaðs tíma fram að sláturtíð er starfshópnum falið að hraða störfum eins og unnt og að skil tillagna hópsins til landbúnaðarráðherra verði eigi síðar en 10. ágúst n.k.
Í landbúnaðarráðuneytinu, 1. ágúst 2001