Nýtt byggðakort fyrir Ísland
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 15/2001
Eftirlitstofnun EFTA (ESA) hefur tekið ákvörðun um nýtt byggðakort fyrir Ísland sem gildir til ársloka 2006. Í þessari ákvörðun felst að íslenskum stjórnvöldum er heimilt að veita byggðastyrki á þeim svæðum sem falla undir byggðakortið. Samkvæmt reglum Evrópusambandsins eru ríkisstyrkir til atvinnurekstrar óheimilir. Þó er heimilt, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, að veita byggðastyrki m. a. á svæðum þar sem fjöldi íbúa er minni en sem nemur 12,5 á ferkílómeter.
Samkvæmt ákvörðun ESA mega íslensk stjórnvöld veita byggðastyrki í öllum sveitarfélögum landsins nema Reykjavík, Kópavogsbæ, Seltjarnarneskaupsstað, Garðabæ, Hafnarfjarðarkaupstað, Bessastaðahreppi, Mosfellsbæ, Reykjanesbæ, Sandgerðisbæ, Gerðahreppi og Vatnleysustrandahreppi. Önnur sveitarfélög í landinu falla undir byggðakortið. Sú breyting hefur orðið frá því að byggðakort var síðast samþykkt fyrir Ísland á árinu 1996 að Kjósahreppur fellur nú undir byggðakortið en framangreind sveitarfélög á Suðurnesjum falla nú utan byggðakortsins.
Hámark styrks má nema allt að 17% af stofnkostnaði einstakra fjárfestinga en u.þ.b. 10% til viðbótar þegar um er að ræða lítil og meðalstór fyrirtæki. Er styrkþakið í samræmi við þá ákvörðun sem ESA tók árið 1996 í þessum efnum.
Reykjavík, 9. ágúst 2001.