4. - 10. ágúst 2001
Fréttapistill vikunnar
4. - 10. ágúst 2001
Ný viðbygging við heilsugæslustöðina á Kópaskeri tekin í notkun
Þann 8. ágúst sl. var formlega tekin í notkun viðbygging við heilsugæslustöðina á Kópaskeri. Viðbyggingin er um 120 fermetrar að grunnfleti en gamla húsnæðið var um 140 fermetrar en þar var ennfremur rekin lyfsala og er enn. Allt gamla húsnæðið var endurnýjað um leið og er heilsugæslustöðin nú um 260 fermetrar með lyfsölunni. Framkvæmdir við nýbyggingu og endurbætur á eldra húsnæði tóku um átján mánuði. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra var viðstaddur opnun nýrrar og endurbættrar stöðvar og flutti ávarp. Heilsugæslustöðin á Kópaskeri var á síðasta ári sameinuð heilsugæslustöðvunum á Raufarhöfn og Þórshöfn og sjúkrahúsinu á Húsavík og við sameininguna varð til Heilbrigðisstofnun Þingeyinga.
Tóbaksvarnir
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið minnir á að ný lög um um breytingu á lögum um tóbaksvarnir, nr. 74/1984, sbr. lög nr. 101/1996 tóku gildi 1. ágúst sl. Ráðuneytið hvetur fólk til að kynna sér lögin. Markmið laganna er að draga úr heilsutjóni og dauðsföllum af völdum tóbaks með því að minnka tóbaksneyslu og vernda fólk fyrir áhrifum tóbaksreyks. Réttur fólks til reyklauss andrúmslofts er viðurkenndur og er í lögunum sérstaklega kveðið á um rétt barna að þessu leyti. Þess má geta að í Danmörku tóku nýlega gildi breytingar á tóbaksvarnarlögum þar sem skerptar eru reglur sem ætlað er að vernda börn og ungmenni fyrir reykingum. Danska heilbrigðisráðuneytið hefur gefið út leiðbeiningar um þessi efni og eru þær aðgengilegar á heimasíðu ráðuneytisins.
Þann 1. ágúst tók gildi reglugerð um tímabundnar undanþágur frá 18 ára aldurstakmarki vegna sölu tóbaks, samkvæmt lögum um tóbaksvarnir.
SKOÐA REGLUGERÐ...
Enskar þýðingar á lögum og reglugerðum er varða heilbrigðismál
Á enska hluta heimasíðu ráðuneytisins er af finna samantekt þeirra laga og reglugerða sem heyra undir ráðuneytið og eru til í enskri þýðingu. Nýjust er þýðing laga nr. 16/2001 um lækningatæki og jafnframt þýðing reglugerðar 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.
SAFN LAGA OG REGLUGERÐA Á ENSKU...
Ný heimasíða vísindasiðanefndar
Visindasiðanefnd.is er netfang nýrrar heimasíðu sem nú hefur verið opnuð. Þar eru m.a. upplýsingar um starfsemi nefndarinnar og lagagrundvöll. Einnig er þar að finna leiðbeiningar vegna umsókna til nefndarinnar og umsóknareyðublöð, eftirlitsskýrslur og úrsögn úr rannsókn og enn fremur leiðbeiningar um upplýst samþykki og viðmið Vísindasiðanefndar er varða rannsóknir og þátttöku í þeim.
SKOÐA SÍÐUNA... |
10. ágúst 2001