11. - 17. ágúst 2001
Fréttapistill vikunnar
11. - 17. ágúst 2001
Framtíðarsýn í heilbrigðismálum
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur gefið út erindi og ávörp sem haldin voru á síðasta heilbrigðisþingi sem haldið var í Salnum í Kópavogi, en heilbrigðisþing skal lögum samkvæmt halda fjórða hvert ár. Í heftinu er að finna erindi og ávörp þar sem fjallað er um forsendur heilbrigðisáætlunar, forvarnir, gæðamál, menntun heilbrigðisstétta og framtíðarskipulag heilbrigðisþjónustunnar, svo dæmi séu nefnd. Heftið er tæpar 90 síður og mun verða aðgengilegt sem pdf skjal á heimasíðu ráðuneytisins innan skamms.
Íslendingur í hópi átta doktora sem brautskrást frá Norræna heilsuháskólanum.
Þriðja sinni brautskráði Norræni heilsuháskólinn í Gautaborg doktora á laugardaginn var. Í þeirra hópi var einn Íslendingur, Kristján Sigurðsson, yfirlæknir. Við brautskráninguna voru haldnir fyrirlestrar um lýðheilsu, lífsgæði og árangur einstaklinga. Guðjón Magnússon, sem er rektor Norræna heilsuháskólans, flutti síðast nefnda fyrirlesturinn. Í máli sínu lagði hann út af kenningum rithöfundarins og heimspekingsins Edward de Bonos sem eru á þá leið að lykillinn að árangri einstaklinga sé sterkur vilji, stefnufesta og síðast en ekki síst hæfileikinn til að líta á erfiðleika sem áskorun um að sigrast á þeim. Guðjón sagði rannsóknir vera mikilvægan lið í baráttunni fyrir bættri heilsu almennings og að Norræni heilsuháskólinn gegni þar einstöku hlutverki, m.a. vegna fjölbreyttrar reynslu og þekkingar nemendanna og vegna starfshátta og starfsumhverfis skólans.
Óheimilt verður að markaðssetja sígarettur sem ,,léttar" eða ,,mildar"
Innan árs mun Evrópusambandið setja bann við markaðssetningu á sígarettum þar sem þær eru sagðar ,,léttar" eða ,,mildar". Lengi hefur tíðkast að selja ákveðnar tegundir af sígarettum í umbúðum merktum ,,light" eða ,,mild". Rannsóknir hafa hins vegar leitt í ljós að þessar sígarettur eru alveg jafn skaðlegar og hefðbundnar sígarettur. Bann Evrópusambandsins mun einnig taka til landa innan Evrópska efnahagssvæðisins. Norðmenn hafa þegar brugðist við og undirbúa nú breytingu á tóbaksvarnarlögum sínum, þar sem m.a. er lagt bann við því að selja sígarettur með því fororði að þær séu ,,léttar" eða ,,mildar".
NÁNAR...
17. ágúst 2001