Hoppa yfir valmynd
16. ágúst 2001 Matvælaráðuneytið

Reglugerðir fiskveiðiársins 2001 - 2002

Reglugerðir um veiðar á komandi fiskveiðiári.


Sjávarútvegsráðuneytið hefur gefið út fjórar reglugerðir, sem lúta að stjórn veiða á komandi fiskveiðiári. Verður hér á eftir gerð lítililega grein fyrir efni þeirra og þá einkum þeim atriðum, sem taka breytingum frá yfirstandandi fiskveiðiári. Er að öðru leyti vísað til efnis þeirra.
    1. Reglugerð um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2001/2002.
    Í reglugerð þessari eru helstu ákvæði sem lúta að veiðum þeirra báta, sem veiðar stunda með aflamarki og krókaaflamarki. Gilda sömu reglur um krókaaflamark og almennt aflamark nema annars sé sérstaklega getið. Verður hér helstu breytinga getið, sem felast í þessari reglugerð:

    a. Tegundum í kvóta fjölgar um þrjár. Þessar nýju tegundir eru: keila, langa og skötuselur. Við úthlutun aflahlutdeildar verður byggt á veiðireynslu fiskiskipa á tímabilinu 1. júní 1998 til 31. maí 2001. Kvóti fyrir keilu verður 4.500 lestir, 3.000 lestir fyrir löngu og 1.500 lestir fyrir skötusel. Fiskistofa mun í upphafi fiskveiðiárs úthluta 80% heildarkvótans á grundvelli veiðireynslu en búast má við því að endanleg úthlutun fari fram um miðjan október. Steinbítur verður áfram í kvóta.
    b. Um nokkurt árabil hefur helmingur undirmálsþorsks reiknast utan kvóta, endi fari undirmálsþorskur ekki yfir 7% af afla í veiðiferð. Á næsta fiskveiðiári verður miðað við að hlutur undirmálsþorks geti orðið allt að 10% af afla í veiðiferð.
    c. Á næsta fiskveiðiári verður álag á óunninn þorsk, sem fluttur er á erlendan markað án þess að vera vigtaður endanlega hér á landi lækkað úr 15% í 10%. Verður þá sama álag á allar botnfisktegundir, sem ekki eru vigtaðar endanlega hér á landi.
    d. Þeim krókabátum sem valið hafa að stunda veiðar með krókaaflamarki á næsta fiskveiðiári verður úthlutað aflamarki í þorski, ýsu, ufsa og steinbít á næsta ári á grundvelli hlutdeildar þeirra í þessum tegundum. Þeim er aðeins heimilt að stunda veiðar með línu og handfærum. Sérreglur gilda um hrognkelsaveiðar. Krókaaflahlutdeild og krókaaflamark verður aðeins flutt til annars báts með krókaaflamarksleyfi en ekki til báts, sem hefur almennt aflamarksleyfi. Hins vegar er heimilt að flytja aflamark og aflahlutdeild í þorski, ýsu, ufsa og steinbít frá báti í hinu almenna aflamarkskerfi til báts í krókaaflamarkskerfinu.

    2. Reglugerð um veiðar dagabáta.
    Þeir bátar sem aðeins mega stunda veiðar með handfærum í 21 dag á næsta ári eru hér nefndir dagabátar. Þessum bátum er aðeins heimilt að stunda veiðar 1. september til 31. október og 1. apríl til 31. ágúst. Reglur um veiðar þessara báta eru að mestu óbreyttar frá því sem gilt hefur um veiðar þeirra báta sem stundað hafa veiðar eftir dagakerfi að öðru leyti en því, að dagarnir eru nú framseljanlegir, bæði innan fiskveiðiársins og eins varanlega. Vísast til 7. gr. reglugerðarinnar um flutning daga milli báta.

    3. Reglugerð um úthlutun samkvæmt 1. mgr. ákvæðis XXV til bráðbirgða í lögum um stjórn fiskveiða.
    Samkvæmt ákvæði XXV til bráðabirgða skal ráðherra árlega til ársins 2005/2006 úthluta 3.000 lestum af þorski til báta sem fullnægja þeim skilyrðum sem sett eru í lögunum. Skilyrði úthlutunar eru óbreytt og verður úthlutun þessara uppbóta með sama hætti á komandi fiskveiðiári og verið hefur hin tvö síðustu ár.

    4. Reglugerð um sérstaka úthlutun samkvæmt 9. gr. laga um stjórn fiskveiða.
    Samkvæmt 9. gr. hefur ráðherra nokkrar aflaheimildir til ráðstöfunar til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga í aflamarki einstakra tegunda. Hefur þessari heimild verið beitt til að bæta rækjubátum að hluta til þá skerðingu sem orðið hefur í innfjarðarækjuveiðum. Verður svo einnig gert í ár og fá bátar frá Húnaflóa, Skagafirði, Skjálfanda, Axarfirði og Eldeyjarsvæðinu bætur. Nema bætur til innfjarðarækjubáta samtals 1.826 þorskígildistonnum. Þá hefur ráðherra ákveðið nokkrar bætur til þeirra báta sem orðið hafa fyrir verulegum skerðingum í hörpudisksveiðum á Ísafjarðadjúpi og Húnaflóa. Koma 105 þorskígildistonn samtals í hlut Húnaflóabáta en 80 lestir í hlut Ísafjarðarbáta.
      Sérstakar ráðstafanir vegna krókaaflamarksbáta.

      Til að bæta stöðu krókaaflamarksbáta verði gripið til eftirfarandi aðgerða:
      a. Krókaaflamarksbátum verði úthlutað sérstaklega í upphafi næsta fiskveiðiárs 1.800 lestum af ýsu, 1.500 lestum af steinbít og 300 lestum af ufsa. Þessu magni verði skipt milli krókaaflamarksbáta á grundvelli aflareynslu þeirra á tímabilinu 1. júní 2000 til 31. maí 2001. Að þeirri úthlutun lokinni verði aflahlutdeild krókaaflamarksbáta aukin í samræmi við þessa breytingu en hlutdeild annarra aflamarksbáta í þessum tegundum lækkuð.
      b. Krókaaflamarksbátum verði ennfremur úthlutað 200 lestum í ýsu og 600 lestum í steinbít á næsta fiskveiðiári á grundvelli aflareynslu á tímabilinu 1. júní 2000 til 31. maí 2001. Þessi úthlutun hafi hins vegar ekki áhrif á aflahlutdeild bátanna.

        Með þessum ráðstöfunum yrðu aflaheimildir krókabáta á fiskveiðiárinu 2001/2002 í ýsu auknar úr 2.500 lestum í 4.500 lestir, í steinbít úr 3.400 lestum í 5.500 lestir og í ufsa úr 1.500 lestum í 1.800 lestir.

        Ofangreindar ráðstafanir verða ekki gerðar án breytinga á lögum um stjórn fiskveiða og verður því lagt fram frumvarp þar að lútandi í upphafi haustþings. Ljóst er því að ekki er unnt að láta þær koma til framkvæmda fyrr en liðinn er rétt um það bil mánuður af fiskveiðiárinu. Með þessum breytingum yrði heildakvóti í ýsu, steinbít og ufsa aukið um það magn sem í hlut krókaaflamarksbátanna kæmi.

      Sjávarútvegsráðuneytinu, 16. ágúst 2001.




    Hafa samband

    Ábending / fyrirspurn
    Ruslvörn
    Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

    Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

    Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta