Hoppa yfir valmynd
17. ágúst 2001 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherrar Norðurlanda funda í Álandseyjum.

Dómsmálaráðherrar Norðurlanda funda í Álandseyjum.

Fréttatilkynning

Nr. 28/2001


Óeirðirnar sem brutust út í Gautaborg í tengslum við fund ESB nýverið og aukin verslun með konur voru meðal þeirra umræðuefna sem norrænir dómsmálaráðherra fjölluðu um, þegar þeir hittust á Álandseyjum fimmtudaginn 16. ágúst.

Fundurinn hófst með því að gestgjafinn á staðnum, Sune Eriksson formaður landsstjórnarinnar, kynnti þeim sjálfsstjórnina á Álandseyjum. Síðan var gengið til dagskrár. Ráðherrarnir ræddu um hvernig ríkin eigi að bregðast við atburðum eins og þeim sem urðu í Gautaborg á leiðtogafundi ESB, þ. á m. hvort þörf sé á lagabreytingum, hvað unnt sé að gera til að koma í veg fyrir að slík atvik eigi sér stað aftur og hvaða möguleika lögreglan eigi að hafa til að stunda eftirlits- og rannsóknarstörf. Meðal annars var rætt um bann við að vera "grímuklæddur" í mótmælaaðgerðum. Á undanförnum misserum hafa alþjóðlegir fundir einkennst af hópum sem hafa truflað almannafrið, ráðist gegn lögreglu, kastað steinum og valdið margvíslegu tjóni. Ráðherrarnir líta á þessa tegund óróa sem sameiginlegt vandamál, sem nauðsynlegt sé að vinna gegn í sameiningu. Greint var frá nýrri sænskri nefnd sem á að gera úttekt á óeirðunum í Gautaborg. Nefndinni er ætlað að koma með tillögur til úrbóta sem sé ætlað að draga úr, hindra og berjast gegn því að alvarlegar truflanir á almannafriði eigi sér stað, en samtímis þarf að hafa í huga tjáningarfrelsi og réttaröryggi. Ráðherrarnir sýndu þessu nefndarstarfi mikinn áhuga.

Verslun með konur eða mansal er vandamál sem Norðurlöndin eiga sameiginlegt með Eystrasaltslöndunum. Fjallað var um herferð gegn þessum vanda sem jafnréttisráðherrar á Norðurlöndum gerðu tillögu um á ráðstefnu í Vilníus fyrr á árinu. Herferðin er skipulögð af starfshópi skipuðum af Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum, þar sem sæti eiga fulltrúar af sviðum jafnréttis- og dómsmála og frá lögreglu. Ætlunin er að hún fari fram á árinu 2002. Samvinna á ennfremur að felast í skiptum á upplýsingum. Sólveig Pétursdóttir lagði á sameigilegum blaðamannafundi ráðherranna áherslu á að ekki aðeins væri um skipulagða glæpastarfsemi að tefla, heldur væri mannleg virðing í húfi. Hún áréttað einnig að Norðurlöndin fullgiltu sáttmála Sameinuðu Þjóðanna um bann við verslun með konur. Þar væri að finna mikilvæga skilgreiningu á refsiverðri háttsemi á þessu sviði sem hægt væri að nýta til þess að samræma refsilöggjöf ríkjanna. Hún lagði á fundi ráherranna áherslu á að Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin færu af stað með kynningarherferð til að vekja athygli á vandamálinu og lögregla tæki þátt í því verkefni. Einnig þyrfti að veita vitnum í slíkum brotamálum virka vernd, sem ætti einnig almennt við þegar um ræðir kynferðisbrot gegn konum.

Á fundinum var kynnt skýrsla Norrænu refsiréttarnefndarinnar um hvernig sporna megi við barnaklámi á Netinu. Þar er m.a. lýst norrænni löggjöf á þessu sviði og fjallað um þörf á aukinni ábyrgð netfyrirtækja varðandi miðlun á barnaklámi.

Á dagskránni var einnig umfjöllun um afbrot barna og ungmenna, aukna skilvirkni í dómstóla, fyrirhugðan fund með dómsmálaráðherrum Eystrasaltsríkjanna og viðfangsefni og afrakstur formennsku Svíþjóðar í ESB. Ráðherrarnir sem taka þátt í fundinum eru auk Sólveigar Pétursdóttur, dóm- og kirkjumálaráðherra, Johannes Koskinen, frá Finnlandi, Frank Jansen, Danmörku, Thomas Bodström, Svíþjóð, og Hanne Harlem, Noregi, en auk þeirra sátu fundinn Sune Eriksson og Hogni Hoydal fulltrúi landsstjórnar Færeyja.



Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
17. ágúst 2001.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum