Hoppa yfir valmynd
17. ágúst 2001 Utanríkisráðuneytið

Fréttatilkynning nr. 072, 17. ágúst 2001 Fundur Halldórs Ásgrímssonar og Louis Michel utanríkisráðherra Belgíu

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________


Nr. 072

Louis Michel, utanríkisráðherra Belgíu, kom í opinbera heimsókn til Íslands í dag, föstudaginn 17. ágúst, í boði Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra.

Á fundi ráðherranna var fjallað um tvíhliða samskipti Íslands og Belgíu, framkvæmd EES-samningsins og áherslur í formennskutíð Belgíu í Evrópusambandinu en Belgar tóku við formennsku í sambandinu þann 1. júlí síðastliðinn.

Ráðherrarnir skiptust almennt á viðhorfum og skoðunum um stöðu og þróun mála í Evrópu. Utanríkisráðherra Belgíu gerði í megindráttum grein fyrir stefnu Belga í formennskutíð þeirra í Evrópusambandinu.

Utanríkisráðherra kynnti sjónarmið Íslands varðandi stöðu EES-samningsins í ljósi þeirrar þróunar sem átti hefði sér stað innan Evrópusambandsins undanfarin ár. Hefði Evrópusambandið þróast með þeim hætti á nokkrum mikilvægum sviðum að það kallaði á mat á því hvort tímabært væri að hefja skoðun á möguleikum þess að færa ákvæði EES-samningsins á ný í það horf að hann endurspeglaði sem best ákvæði sáttmála Evrópusambandsins. Utanríkisráðherra lýsti því að stækkun Evrópusambandsins kallaði enn frekar á slíka skoðun og gæfi ákveðin tækifæri í þessu sambandi. Utanríkisráðherra Belgíu tók undir þessi sjónarmið og lýsti vilja sínum til að leggja til að skoðun á möguleikum í þessu efni færi fram t.d. með því setja á fót sérstakan vinnuhóp í þessu skyni.

Ráðherrarnir voru sammála um mikilvægi stækkunar Evrópusambandsins og þá sameiginlegu hagsmuni sem aðildarríki sambandsins og EFTA-ríkin eiga þar að gæta þar sem ný aðildarríki Evrópusambandsins munu einnig verða aðilar að EES-samningnum.

Utanríkisráðherrarnir ræddu ennfremur þróun sameiginlegrar stefnu ESB í öryggis- og varnarmálum og voru sammála um að hún yrði að vera nátengd Atlantshafsbandalaginu og mætti alls ekki verða til þess að veikja það með nokkrum hætti. Utanríkisráðherra undirstrikaði í því sambandi mikilvægi þess að ESB hefði náið samráð um öryggis- og varnarmál við þau sex evrópsku ríki Atlantshafsbandalagsins sem ekki væru jafnframt aðilar að ESB. Þá voru ráðherrarnir á einu máli um að samstarf og samráð ESB og NATO á Balkanskaga hefði verið farsælt. Skiptust þeir á skoðunum um ástand mála þar m.a. í ljósi heimsóknar Halldórs Ásgrímssonar til Kósóvó fyrr í vikunni og heimsóknar Louis Michel til Skopje vegna undirritunar friðarsamnings á milli stjórnvalda í Makedóníu og fulltrúa albanska minnihlutans fyrir atbeina ESB og NATO.

Utanríkisráðherra Belgíu lýsti jafnframt yfir skilningi við sjónarmið þau sem Ísland hefur haft uppi varðandi Kyoto bókunina.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 17. ágúst 2001.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta