Nr. 071, 16. ágúst 2001 Fundur Halldórs Ásgrímssonar og Hans Hækkerup í Pristina
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Halldór Ásgrímsson og Hans Hækkerup
í Pristina, 16. ágúst 2001
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, fundaði í dag í Pristina, höfuðborg Kosóvó, með Hans Hækkerup, æðsta yfirmanni sendinefndar Sameinuðu þjóðanna í héraðinu (UNMIK). Á fundinum var ástand mála í Kosóvó rætt, bæði með tilliti til þess sem vel hefur tekist og þeirra vandamála sem enn eru óleyst. Utanríkisráðherra lýsti yfir stuðningi íslenskra stjórnvalda við starfsemi alþjóðaliðsins í Kosóvó og gerði stuttlega grein fyrir áformum íslenskra stjórnvalda um eflingu friðargæslu. Hækkerup fagnaði þeim tíðindum og lofaði þátt Íslands í hinu fjölþjóðlega friðargæsluliði í Kosóvó en samtals starfa 18 Íslendingar að friðargæslu- og uppbyggingarstarfi í héraðinu, þar af átta á vegum utanríkisráðuneytisins. Hækkerup sagðist bjartsýnn á að kosningar til sjálfsstjórnarþings Kosóvó sem fram fara þann 17. nóvember nk. myndu ganga vel og sagði þær mikilvægt skref til eflingar lýðræðisþróunar. Hann óttast þó að ofbeldi muni aukast í héraðinu í aðdraganda kosninganna, einkum ef ekki tekst að halda friðinn í norðurhluta Makedoníu.
Í gær hitti utanríkisráðherra Torstein Skiaker, æðsta yfirmann hersveita Atlantshafsbandalagsins í Kosóvó (KFOR). Alls eru rúmlega 44.000 hermenn NATO-ríkjanna staðsettir í Kosóvó og sagði Skiaker að þeirra verkefni, að tryggja friðinn og að koma í veg fyrir að átök brjótist út, gangi vel. Hann sagði ólíklegt að átökin í Makedoníu kynnu að færast yfir til Kosóvó-héraðs, en benti hins vegar á að smygl á vopnum frá Kosóvó til átakasvæðisins í Makedoníu væri áhyggjuefni sem taka yrði föstum tökum.
Í heimsókninni heimsótti utanríkisráðherra einnig vinnustaði þeirra Íslendinga sem starfa hjá Sþ., NATO og ÖSE í Kosóvó og átti við þá viðræður. Heimsókn utanríkisráðherra til Kosóvó-héraðs lauk í síðdegis dag.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 16. ágúst 2001.