Hoppa yfir valmynd
24. ágúst 2001 Matvælaráðuneytið

Ávarp á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, 23.08.2001

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi
23. ágúst 2001.


Leiðari Morgunblaðsins sl. sunnudag bar yfirskriftina "Á hverju eigum við að lifa". Í leiðaranum er m.a. fjallað um Kárahnjúkavirkjun og þær spurningar sem þjóðin stendur frammi fyrir við upphaf 21. aldarinnar varðandi þróun almennra lífskjara. Spurt er hversu miklum efnalegum kjarabótum Íslendingar séu tilbúnir til að fórna í framtíðinni til þess að vernda náttúru Íslands. Að mínu viti er þetta kjarni málsins.

Ljóst er að svör manna við slíkri spurningu geta mjög ráðist af þeirri aðstöðu sem þeir eru í þegar spurningin er sett fram. Stuðningur við byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álvers á Reyðarfirði er mjög mikill hér á Austurlandi og meirihluti landsmanna skv. skoðanakönnun styður þau áform. Fólk hér á þessu svæði veit að þessar framkvæmdir munu skapa ný tækifæri og efla búsetu á svæðinu og almenningur veit hvaða þýðingu auknar þjóðartekjur og aukinn hagvöxtur hefur í för með sér fyrir allt samfélag okkar.

Ljóst er að þeir sem eru meðmæltir Kárahnjúkavirkjun og byggingu álvers vita að ekki verður hægt að halda uppi þeim lífskjörum sem við búum við í dag nema okkur takist að auka útflutningstekjur. Við getum ekki vænst þess að tekjuaukning í sjávarútvegi, ferðmennsku eða þekkingariðnaðari geti staðið undir þeim lífsgæðum sem þjóðin mun gera kröfu um á næstu árum. Að halda öðru fram væri blekking.

Eins og staða er nú þá sé ég ekki aðra kosti - til að viðhalda þeim lífskjörum sem þjóðin gerir kröfu um - en að halda áfram frekari uppbyggingu í stóriðju. Öðruvísi getum við ekki haldið í við þær þjóðir sem við höfum viljað bera okkur saman við.

Það er hlutverk stjórnmálamanna að horfa til framtíðar og leita leiða til að tryggja þegnum landsins sem best lífskjör. Það verður ekki gert með óraunhæfum hugmyndum um - eitthvað annað – . Fjárfestar eru ekki tilbúnir til að leggja fé í verkefni nema þeir meti það svo að arðsemin verði viðunandi. Norsk Hydro hefur áhuga á að fjárfesta í álveri á Reyðarfirði og Norðurál hefur áhuga á að stækka álverið á Grundartanga. Eins og staðan er nú þá eru ekki aðrir kostir í augsýn en frekari stóriðjuframkvæmdir ef við á annað borð ætlum að bæta kjörin á næstu árum.

Verði af byggingu Reyðaráls og stækkun Norðuráls munu útflutningstekjur þjóðarinnar aukast um 50 - 60 milljarða kr. Það er ríflega helmingurinn af núverandi útflutningsverðmæti sjávarafurða og tvöfaldar núverandi gjaldeyristekjur af ferðamennsku - svo dæmi sé tekið.


Frá því að sameiginleg yfirlýsing um byggingu álvers við Reyðarfjörð var undirrituð í maí á síðasta ári hefur verið unnið að framgangi verkefnisins í samræmi við þá tímaáætlun sem þar var sett. Unnið hefur verið að gerð fjölmargra samninga um ýmsa þætti verkefnisins. Þar er m.a um að ræða innri samninga milli fjárfesta, samninga um orku milli Reyðaráls og Landsvirkjunar og samninga milli Reyðaráls, stjórnvalda og Fjarðabyggðar. Á grundvelli þeirrar vinnu verða vonandi teknar ákvarðanir um fjármögnun verkefnisins síðar í haust.

Aldrei fyrr hefur jafn miklu fjármagni verið varið í rannsóknir, undirbúning og kostnað við mat á umhverfisáhrifum eins og Landsvirkjun gerði varðandi Kárahnjúkavirkjun. Fjölmargir aðilar komu að gerð matsskýrslunnar og nam kostnaður við gerð hennar um 250 millj. kr. Það voru mér og mörgum öðrum mikil vonbrigði þegar Skipulagsstjóri lagðist gegn framkvæmdinni. Ég hef heyrt marga sem lögðu til efni vegna úrskurðarins lýsa yfir óánægju og undrun yfir þessari niðurstöðu og vísa til þess að Skipulagsstjóri hafi meira vitnað til neikvæðra atriða en jákvæðra. Ég get tekið undir þetta a.m.k. hvað varðar umsögn iðnaðarráðuneytisins. Í umsögn ráðuneytisins var fjallað um skýrsluna út frá faglegum forsendum og bent á nokkur atriði sem skýra þurfti betur. Í úrskurði Skipulagsstjóra var eingöngu vísað til þeirra þátta sem ráðuneytið taldi að nánari skýringa þyrfti við og í raun hefði jafnvel mátt lesa úr úrskurðinum að iðnaðarráðuneytið legðist gegn framkvæmdinni.

Úrskurðurinn vekur margar spurningar. Öll niðurstaða Skipulagsstofnunar er skrifuð með neikvæðum hætti, allar rannsóknarniðurstöður sem lágu til grundvallar matinu eru tortryggðar en oftar en ekki er vísað til einkaráðgjafa, sem stofnunin hefur beðið um álit og þeirra áliti hampað. Þessi álit draga þá í efa niðurstöður rannsóknanna og segja að athuga þurfi eitt og annað betur. Auðvitað má endalaust fara fram á alls kyns rannsóknir en það var og er ekki tilgangur laganna um mat á umhverfisáhrifum að hægt sé að drepa málum á dreif á þennan hátt. Skýrslan um mat á umhverfisáhrifum endurspeglar vel þær rannsóknir og umhverfisáhrif sem liggja þurfa til grundvallar ákvörðun um framkvæmdina. Skipulagsstofnun segir víða í úrskurðinum að ekki hafi verið gerð nægjanleg skil einstökum þáttum til að unnt sé að meta áhrif þeirra en benda má á að stofnunin hafði ýmsa möguleika til að afla frekari gagna á fyrri stigum matsins. Segir stofnunin berlega að hún hafi ekki haft möguleika til að vinna að þessu verki samkvæmt lögum vegna knapps tíma, en eigi að síður er felldur úrskurður sem byggist m.a. á því að varanleg áhrif Kárahnjúkavirkjunar á íbúa- og byggðaþróun á Austurlandi muni verða óveruleg. Þarna er raunar ekki fjallað um afurð virkjunarinnar til atvinnusköpunar í nýju álveri á Reyðarfirði þó svo að mat virkjunarinnar sé að hluta til lagt fram í tengslum við Noral –verkefnið. Í mati sínu á áhrifum á loftslag segir hins vegar stofnunin að hún minni á væntanleg áhrif álvers á Reyðarfirði m.t.t. losunar gróðurhúsalofttegunda. Þetta er aðeins eitt dæmið um misvísandi túlkun og ályktanir, sem beinast í eina átt.

Annað dæmi um þetta má nefna að Landsvirkjun er samkvæmt þessum úrskurði gert að gera grein fyrir efnahagslegum áhrifum af stækkun Norðuráls í Hvalfirði, en sú framkvæmd kemur Kárahnjúkavirkjun ekkert við. Landsvirkjun er einnig gert að verðmeta þá náttúru sem verður fyrir skaða af völdum framkvæmdanna. Þetta er alveg ný túlkun og getur því orðið mikilvægt fordæmi fyrir allar aðrar framkvæmdir þar sem þarf mat á umhverfisáhrifum. Landsvirkjun lagði ekki fram þessar upplýsingar og úrskurður Skipulagsstofnunar byggir á því að upplýsingar hafi skort. Það er því mjög mikilvægt að umhverfisráðherra túlki þessi nýju lög um mat á umvherfisáhrifum og úrskurði hve langt Skipulagsstofnun getur gengið í kröfum sínum á hendur framkvæmdaaðilanum.

Sú staða sem upp er kominn eftir úrskurð Skipulagsstjóra um Kárahnjúkavirkjun hefur vakið upp ýmsar spurningar. Í því sambandi nægir að vísa til umfjöllunar ýmissa lögfræðinga um málið þar sem sumir þeirra hafa efasemdir um að úrskurður umhverfisráðherra um mat á umhverfisáhrifum sé endanlegur dómur um það hvort ráðist verði í virkjanaframkvæmdir. Sumir hafa bent á að eðlilegt sé að matið verði unnið á ábyrgð endanlegs leyfisveitanda eins og tíðkast alls staðar í Evrópu. Spyrja má t.d. hvort það sé verkefni Skipulagsstjóra lögum samkvæmt að fjalla með þeim neikvæða hætti í úrskurði sínum um hinar efnahagslegu forsendur þegar ráðist er í virkjanaframkvæmdir. Eðlilegt er að tillit sé tekið til slíkra þátta, en að það sé gert með þeim hætti sem kemur fram í úrskurðinum, orkar vægast sagt tvímælis. Lögin fjalla ekki um þetta þó svo að fjalla beri um samfélagslega þætti framkvæmdar. Þegar fjallað er um þróun lífskjara og samfélagsleg áhrif hljótum við að spyrja hvort það sé hlutverk umhverfisyfirvalda einna að horfa til þessara þátta.

Ég tel mjög mikilvægt að þessi úrskurður Skipulagsstofnunar verði kærður. Það kemur því í hlut æðri stjórnvalda að skera úr um réttmæti þeirra krafna sem Skipulagsstofnun setur fram á hendur Landsvirkjun. Að sumu leyti má segja að fyllri og meiri upplýsingar liggja nú fyrir en á þeim tíma er matsskýrslan var samin og feikileg gögn liggja fyrir um hið fyrirhugaða mannvirki og rannsóknir sem fram hafa farið.
Það er mitt mat að málið sé í eðlilegum farvegi, en að sjálfsögðu hefur úrskurður skipulagsstjóra skapað óvissu. Þeirri óvissu verður best eytt með því að taka alla þætti málsins inn í þá mynd sem blasir við ef af framkvæmdum verður – annars vegar, og hinsvegar ef ekki verður af framkvæmdum. –Þar hljóta hin efnahagslegu rök og áhrifin á byggðina að vega þungt en jafnframt verður að taka eins mikið tillit til náttúrufars og umhverfis og nokkur kostur er. Andi laganna um mat á umhverfisáhrifum er með þeim hætti.
Austfirðingar hafa sýnt einstaka samstöðu í þessu stærsta máli þjóðarinnar um þessar mundir. Sú samstaða er ómetanleg okkur sem vinnum að því að koma þessu máli í höfn. Ég þakka þann stuðning og horfi með tilhlökkun til áframhaldandi samstarfs.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta