Nr. 078, 31. ágúst 2001 Ráðstefna utanríkisráðuneytisins fyrir kjörræðismenn Íslands erlendis
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 078
Dagana 2.-5. september næstkomandi stendur utanríkisráðuneytið fyrir ráðstefnu á Grand Hótel Reykjavík fyrir kjörræðismenn Íslands erlendis. Ráðstefnan verður sú fimmta í röðinni í sögu utanríkisþjónustunnar en áður hafa sambærilegar ráðstefnur verið haldnar árin 1971, 1977, 1986 og 1995.
Öllum kjörræðismönnum Íslands erlendis er boðið til ráðstefnunnar ásamt mökum. Nú gegna 240 einstaklingar stöðu ræðismanna Íslands í 70 ríkjum. Af þeim hafa 140 staðfest þátttöku á ráðstefnunni í næstu viku.
Meginmarkmið utanríkisráðuneytisins með ráðstefnu af þessu tagi er að auka þekkingu og skilning ræðismannanna á Íslandi og íslenskum hagsmunum, svo og til að efla tengsl þeirra við starfsfólk utanríkisráðuneytisins og hagsmunaaðila á sviði viðskipta og ferðaþjónustu. Kjörræðismenn Íslands erlendis eru mikilvægur liðsauki fyrir fámenna utanríkisþjónustu og hafa þeir oft reynst íslenskum hagsmunum ómetanlegir.
Á ráðstefnunni nú verður lögð áhersla á að upplýsa kjörræðismenn sem best um íslenskt efnahags- og atvinnulíf, ferðaþjónustu, menntun og menningu með fjölbreyttri röð fyrirlestra auk þess sem Viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins og Útflutningsráð Íslands efna til sérstakrar viðskiptakynningar með þátttöku hátt í 50 fyrirtækja.
Á síðasta degi ráðstefnunnar verður þátttakendum boðið í kynnisferð um Vesturland með viðkomu í Stykkishólmi, Búðardal, Eiríksstöðum í Haukadal og Snorrastofu í Reykholti.
Dagskrá ræðismannaráðstefnunnar 2.-5. september næstkomandi er hjálögð til fróðleiks.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 31. ágúst 2001.