Hoppa yfir valmynd
31. ágúst 2001 Dómsmálaráðuneytið

Vígsla á nýju húsi Héraðsdóms Reykjaness

Vígsla á nýju húsi Héraðsdóms Reykjaness 31. ágúst 2001
Ávarp dómsmálaráðherra


Dómstjóri, dómarar og aðrir góðir gestir.

Mér er það sérstök ánægja að standa hér með ykkur í dag á þessum tímamótum fyrir Héraðsdóm Reykjaness. Við erum hér í dag til að taka með formlegum hætti í notkun glæsilegt húsnæði, sem hannað er frá grunni með þarfir dómstólsins í huga. Er hér um mikilvægt framfaramál að ræða og er ánægjulegt að sjá hversu vel hefur tekist til .

Nú eru tæp tíu ár liðin frá því að dómstólaskipunin í héraði var stokkuð upp og dómsvald í héraði var fært í hendur átta héraðsdómstóla. Þegar við lítum til baka er auðséð hvílíkt framfaraskref var stigið með stofnun þeirra og hve vel hefur tekist til við mótun þessara nýju dómstóla. Ég held raunar að þeir hafi sannað sig með svo afgerandi hætti að mörgum hljóti að þykja með ólíkindum að fyrir aðeins áratug síðan vorum við án héraðsdómstólanna og framkvæmda- og dómsvald var á sömu hendi utan Reykjavíkur.

Hér við dómstólinn starfa nú sjö héraðsdómarar. Löglærðir aðstoðarmenn héraðsdómara eru tveir og aðrir starfsmenn dómstólsins eru sex talsins. Dómstólnum bárust í fyrra fimmþúsund fjögurhundruð og fimmtíu mál til úrlausnar. Það má því hverjum manni ljóst vera að hér er haldið vel á spöðunum.

Héraðsdómur Reykjaness var stofnaður í húsnæði við Brekkugötu hér í bænum, sem ekki var sniðið sérstaklega að þörfum hans. Aðstaða fyrir þá, sem erindi áttu við réttinn, var öll mjög takmörkuð auk þess sem starfslið dómsins fann auðvitað mjög fyrir því aðstöðuleysi, sem þar var. Er óhætt að segja að þetta nýja hús feli í sér byltingu í húnæðismálum dómstólsins. Enda þótt hægt væri að rekja í löngu máli þær umbætur, sem í húsinu felast, held ég að sjón sé sögu ríkari og hvet ykkur til að skoða aðstöðuna hér á eftir. Það eru þó tvö atriði, sem mig langar að draga athygli ykkar að. Í þessu húsi er aðstaða lögreglu til að koma með fanga í dómssal öll önnur og betri en áður hefur þekkst. Unnt er að aka lögreglubifreiðum inn í bílageymslu, og er hurðum stýrt með Tetra fjarskiptabúnaði lögreglunnar. Þaðan er hægt að taka lyftu hingað upp, en áður þurfti að fylgja sökuðum mönnum í gegn um almenning allt frá dómssal og út á bílastæði.

Hitt atriðið, sem ég er sérstaklega ánægð með, er að í þessu húsi geta dómarar haldið þinghöld í þeim erfiðu sakamálum, sem snúa að börnum, og tekið skýrslur af þeim án þess að þau þurfi að koma fyrir dóminn. Þetta er gert með því að í samvinnu við Barnahús hefur verið komið upp fjarfundabúnaði, sem tengir húsin tvö saman. Sérfræðingur ræðir við barnið í Barnahúsi, en dómari situr hér í dómssal ásamt ákæranda, verjanda og sakborningi og stýrir þinghaldi. Þeir, sem hér sitja, geta svo komið sínum spurningum á framfæri við sérfræðinginn. Það er mín trú, að með þessu móti séu hagsmunir allra tryggðir. Hefur hér vonandi fundist lausn, sem bindur enda á þær langvinnu deilur, sem staðið hafa um yfirheyrslur yfir börnum og þá umgjörð, sem þeim þarf að skapa.

Það er mér því mikið ánægjuefni að fá að sýna ykkur þennan búnað nú og taka hann í notkun um leið og húsið sjálft.

Kæru gestir. Ég er sannfærð um að sú ágæta aðstaða sem starfsfólki réttarins er búin hér hefur jákvæð áhrif á þau mikilvægu störf sem hér eru unnin.

Að lokum langar mig til þess að óska Héraðsdómi Reykjaness og öllum íbúum umdæmisins hjartanlega til hamingju með húsið. Það er von mín að það starf, sem hér verður unnið, muni verða þeim til heilla.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta