Hoppa yfir valmynd
3. september 2001 Forsætisráðuneytið

Útverðir hins íslenska ríkis

Ávarp forsætisráðherra í kvöldverði til heiðurs
ræðismönnum á Hótel Íslandi, 3. september 2001


Ræðan á ensku

Ágætu ræðismenn, makar og ættingjar.


Það er íslensku ríkisstjórninni sannkallað gleði- og fagnaðarefni að svo mörg ykkar skuli hafa haft ráðrúm í ykkar miklu önnum til að sækja Ísland heim. Vissulega fögnum við öllum gestum, en þið fallið naumast undir það hugtak. Þið eruð fremur heimamenn en gestir, útverðir hins íslenska ríkis um víða veröld. Frakkar eru að vonum stoltir af sinni útlendingahersveit, sem þykir harðsnúin og fær um að takast á við erfið verkefni. Ísland er vopnlaust land og býr því hvorki við innlendar eða útlendar hersveitir sem fara undir íslenskum fána. En samt sést íslenski fáninn víða og við höfum verið svo lánsöm að eignast mikilhæfa merkisbera í ykkur. Fyrir það erum við í mikilli þakkarskuld. Ræðismannafundir eru síðari tíma atburðir á Íslandi og vægi þeirra fer sífellt vaxandi. Með þeim fæst tækifæri til að treysta böndin. Um leið getum við sýnt örlítinn þakklætisvott í ykkar garð og jafnframt náum við að vígbúast með endurnýjuðu vegarnesti þekkingar og fræðslu um íslenska hagsmuni og stefnu, sem þið hafið tekið að ykkur að halda á lofti eins og kostur er. Við reynum að kynna ykkur þann árangur sem náðst hefur á Íslandi síðustu ár og auðvitað er þá hætta á að nokkuð beri á sjálfhælni og sperringi, sem öllum þjóðum fer illa, en ekki síst litlum þjóðum eins og okkar. En þið munuð taka því af umburðarlyndi, vegna þess að þið þekkið ástæðuna, sem er sú, að við þurfum að tína saman allt sem til ágætis má vera í ykkar þekkingarsarp á skömmum tíma, sem þið getið hins vegar myldrað út í minni skömmtum á lengri tíma.

Hinu er ekki að leyna að okkur þykir að nafn landsins, saga þess og náttúra, efnahagsskipun þess og framþróun hafi komist betur til skila á undanförnum árum en áður var. Á því eru allmargar skýringar, sem farið verður yfir á kynningarfundum þessa daga, en ein skýringin er ykkar athafnasemi og fyrir hana þökkum við.

En þótt Ísland sé um þessar mundir velmegandi og efni þjóðarinnar sambærileg við það besta sem þekkist, hefur sú tíð ekki lengi staðið. Þjóðin bjó um aldir við þröngan kost og hertist við óblíð kjör óvæginnar náttúru. Menn urðu harðskeyttir, fáorðir og kjarnyrtir. Gamall bóndi sótti eitt sinn til læknis í höfðustaðinn, sem var sprenglærður úr erlendum skólum. Læknirinn skoðaði bóndann hátt og lágt og lýsti síðan ástandi hans í löngu máli og sagði að lokum að bóndi myndi ekki eiga nema tvær vikur eftir ólifaðar. Bóndinn stóð upp og sagði um leið og hann gekk út að ef hann ætti tvær vikur eftir ætlaði hann að taka aðra vikuna í maí og hina í september, því þá væri mest að gera í sveitinni. Lifði karl í mörg ár eftir þetta. Íslendingar tóku lengi alvarlega fyrirmæli hinna fornu Hávamála sem sögðu: " mæli þarft eða þegi." Stjórnmálamenn eiga þó erfitt að fylgja því heilræði. Coolidge fyrrum forseti Bandaríkjanna, var þó ekki frægari fyrir neitt annað en hve fámáll hann var og var ekki hlaupið að því að draga orð upp úr forsetanum. Glæsileg kona sem var borðdama forsetans varð að búa við það að forsetinn yrti ekki á hana allt kvöldið. Loks brast henni þolinmæðin og sagði: Kæri forseti, þér megið til að segja eitthvað, því ég veðjaði við vinkonu mína að ég fengi þig að minnsta kosti til að segja við mig þrjú orð. Forsetinn leit á konuna og sagði: You loose.

En góðir áheyrendur. Á stundu eins og þessari og í hópi úrvalsfólks sem leggur málstað Íslands svo gott lið, hljótum við að horfa til framtíðar. Markmið okkar eru að halda ótrauð áfram á þeirri braut, sem hefur reynst svo vel. Ísland hefur alla burði til að vera áfram í fremstu röð. Atvinnulíf er traust og öfl náttúrunnar, sem áður voru einatt svo þungbær þjóðinni, eru nú beisluð í hennar þágu. Endurnýjanleg hrein orka er veganestið inn í framtíðina. Efnahagsafkoma er þó ekki allt. Við þurfum að tryggja hér réttlátt þjóðfélag, sem gefur hinum sterka góða möguleika, en veitir honum ekki rétt til að trampa á þeim sem höllum fæti stendur. Hið mikla og merka ljóðskáld W. H. Auden var áhugasamt um Ísland og sagði, árið 1937 eftir eftir heimsókn sína hingað, í bókinni Letters from Iceland: "There is less apparent class distinction in Iceland than in any other capitalist country." og 22 árum síðar segir skáldið í ljóði þess Iceland revisited: "Fortunate island / Where all men are equal / but not vulgar - not yet."

Við stefnum að því að halda svo á okkar málum að skáldin geti áfram gefið landi og þjóð svo góðan vitnisburð.




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta