Fyrirkomulag sölu Landssíma Íslands hf.
Reykjavík
4. september 2001
Fréttatilkynning
Fyrirkomulag sölu á hlutabréfum ríkisins í Landssíma Íslands hf.Framkvæmdanefnd um einkavæðingu hefur að undanförnu unnið að undirbúningi sölu hlutafjár í Landssíma Íslands hf. í samræmi við þá stefnu sem ríkisstjórnin og ráðherranefnd um einkavæðingu markaði sl. vetur. Fjallað var um tillögur nefndarinnar á fundi ríkisstjórnarinnar nú í morgun og ákveðið að fyrirkomulagið skyldi vera með eftirfarandi hætti:
Áskriftarsala til almennings
Samtals verði 16% af heildarhlutafé boðið til sölu í áskriftarsölu til almennings og starfsmanna. Í sölu til almennings verður hverjum og einum boðið að skrá sig fyrir allt að 300 þús. krónum að nafnverði. Verði umframeftirspurn skerðist hámarksáskrift þar til heildarnafnverð verður komið niður í þá fjárhæð sem er í boði. Skerðingin verður því ekki hlutfallsleg. Boðið verður upp á 12 mánaða greiðsludreifingu vegna áskrifta upp að 500 þús. krónum að söluverði. Ekki verði innheimt lántökugjöld, 10% staðgreidd og eftirstöðvar beri 12% óverðtryggða vexti. Hlutabréfin verði höfð að handveði þar til þau eru að fullu greidd.
Sala til starfsmanna
Hverjum og einum starfsmanni verður boðið að kaupa hlutabréf fyrir 100 þús. krónur að nafnverði, þ.e. 50 þús. krónur samhliða almenna útboðinu og 50 þús. krónur að ári liðnu. Boðið verður upp á greiðsluskilmála þannig að 10% verði staðgreidd en eftirstöðvar greiðast með jöfnum afborgunum á þremur árum. Eftirstöðvar verða óverðtryggðar og bera ekki vexti. Komi til skerðingar í almennu útboði mun hlutur starfsmanna ekki skerðast.
Tilboðssala
Samtals verða 8% af heildarhlutafé seld í tilboðssölu. Hverjum og einum verður gefinn kostur á að bjóða í allt að 150 millj. króna að nafnverði.
Sala til kjölfestufjárfestis
Heimilt verður að gera tilboð í 25% heildarhlutafjár ásamt því að ríkið lýsi því yfir að það muni tryggja kjölfestufjárfesti 4 af 7 stjórnarmönnum með ákveðnum skilyrðum sem sett verða með samkomulagi milli ríkisins og kjölfestufjárfestisins. Jafnframt verður honum veittur kaupréttur að 10% heildarhlutafjár á sama verði á tímabilinu 1. nóvember 2002 til 1. febrúar 2003.
Nýti kjölfestufjárfestir ekki kaupréttinn á 10% hlutnum, fellur niður skuldbinding ríkisins um að tryggja honum meirihluta í stjórn.
Varðandi áframhald sölunnar mun ríkið lýsa því yfir að það ætli ekki að selja stærri hlut en sem nemur 5% heildarhlutafjár til eins fjárfestis eftir annan áfanga sölunnar.
Verð í almennu útboði og í sölu til starfsmanna.
Verðmat PwC á Landssíma Íslands hf. liggur fyrir. Jafnframt hafa sérfræðingar Búnaðarbanka Íslands hf. yfirfarið aðferðafræði og útreikninga. Ákveðið hefur verið að gengi í almennri áskriftarsölu og í sölu til starfsmanna verði 5,75 sem jafnframt verður lágmarksgengi í tilboðssölu.
Ákveðið hefur verið að almenn áskriftarsala og tilboðssala fari fram dagana 19.-21. september nk. og undirritun kaupsamnings við kjölfestufjárfesti verði lokið fyrir árslok. Komið hefur fram ósk frá væntanlegum þátttakendum í forvali vegna sölu til kjölfestufjárfestis um að skil á þátttökutilkynningum verði 24. september nk. og hefur verið orðið við þeirri ósk.
Laugardaginn 8. september verður haldinn kynningarfundur í Alþýðuhúsinu á Akureyri vegna fyrirhugaðrar einkavæðingar Landssímans þar sem frekari kynning á fyrirkomulagi sölunnar fer fram. Á fundinum munu Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, Hreinn Loftsson, formaður framkvæmdanefndar um einkavæðingu, Friðrik Pálsson, formaður stjórnar og Þórarinn V. Þórarinsson, forstjóri, halda framsögu. Fundurinn hefst kl. 11.00.
Framkvæmdanefnd um einkavæðingu