Hoppa yfir valmynd
10. september 2001 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Vinnufundur Umhverfisstofnunar S.þ. til undirbúnings úttektar á ástandi hafsins.

Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) mun halda vinnufund í Reykjavík, dagana 12.-14. september á Hótel Loftleiðum. Um er að ræða vinnufund til undirbúnings úttektar á ástandi hafsins með tilliti til mengunar og annarrar röskunar af mannavöldum.

Ísland hefur lengi lagt áherslu á mikilvægi þess að skýr heildarmynd fáist yfir ástand hafsins með tilliti til uppsöfnunar mengunarefna og annarrar röskunar af mannavöldum. Að tillögu Íslands ákvað aðalfundur Umhverfisstofnunar S.þ. í febrúar að kanna möguleika á því að reglulega verði tekið saman heildaryfirlit yfir ástand heimshafanna og þeim upplýsingum komið til stjórnvalda á aðgengilegan hátt ásamt tillögum um nauðsynlegar aðgerðir. Vandamálið er ekki að það skorti endilega upplýsingar. Þær eru hins vegar mjög dreifðar og ekki settar fram á markvissan hátt.

Að mati Íslands er þetta ein ástæða þess að mengun hafsins hefur ekki fengið þá athygli stjórnvalda á alþjóðlegum vettvangi og alþjóðastofnana sem þörf er á. Því til áréttingar ákvað ríkisstjórn Íslands s.l. vor að leggja fram fjárstuðning til Umhverfisstofnunar S.þ. til þessa verkefnis.

Góðar og aðgengilegar vísindalegar upplýsingar geta skipt sköpum þegar koma á af stað alþjóðlegum aðgerðum til lausnar umhverfisvanda. Gott dæmi er nýgerður alþjóðlegur samningur um þrávirk lífræn efni. Það stuðlaði að árangri í samningaviðræðum um þennan samning að fyrir lágu góðar upplýsingar um uppsöfnun þessara efna á norðurslóðum, sem gerðar voru aðgengilegar og kynntar stjórnvöldum af AMAP sem er vinnuhópur á vegum Norðurskautsráðsins. Annað gott dæmi um árangursríkt samstarf þjóða á þessum sviði er sérfræðinganefnd Sþ. um loftslagsbreytingar. Fundinn sitja fulltrúar stofnana Sameinuðu þjóðanna, ásamt alþjóðlegum sérfræðingum í málefnum hafsins.

Fundurinn verður settur með formlegum hætti með ávarpi umhverfisráðherra, miðvikudaginn 12. september, klukkan 11.00. Setning fundarins er opin fjölmiðlum en þar fyrir utan er um lokaðan fund að ræða.

Allar nánari upplýsingar veitir Magnús Jóhannesson í síma 560-9600. Auk þess er hægt að nálgast dagskrá fundarins, fundargögn og lista yfir þátttakendur á heimasíðu UNEP: www.unep.org/marineassessment


Fréttatilkynning nr. 15/2001
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta