Hoppa yfir valmynd
25. september 2001 Dómsmálaráðuneytið

Skýrsla GRECO

Skýrsla GRECO, ríkjahóps Evrópuráðsins um aðgerðir gegn spillingu,
um stöðu mála varðandi spillingu á Íslandi

Fréttatilkynning

Nr. 31/ 2001


Skýrsla GRECO, ríkjahóps Evrópuráðsins um aðgerðir til spillingu, um stöðu mála varðandi spillingu á Íslandi var samþykkt á fundi GRECO í Strasbourg 14. september sl. Skýrslan var gerð í kjölfar heimsóknar úttektarnefndar á vegum GRECO hingað til lands 2. –4. maí sl. og ræddi hún við yfirmenn og aðra fulltrúa fjölda stofnana sem vinna að aðgerðum gegn spillingu. Þessar stofnanir voru: dómsmálaráðuneytið, embætti ríkissaksóknara, viðskiptaráðuneytið, ríkislögreglustjórinn, ríkisendurskoðun, Alþingi, umboðsmaður Alþingis, samkeppnisstofnun, Blaðamannafélag Íslands, Ríkisféhirðir, Samtök atvinnurekenda, fjármálaeftirlitið og Verslunarráð. Dagana 10.-14. september 2001 var skýrslan tekin fyrir á fundi fulltrúa GRECO í Strasbourg og mætti þá íslensk sendinefnd til andsvara um efni skýrslunnar með fulltrúum dómsmálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis og ríkissaksóknara.

Niðurstöður úttektarnefndar GRECO í skýrslunni um stöðu mála á Íslandi eru jákvæðar og telur nefndin að spilling á Íslandi sé með þeirri minnstu sem þekkist í Evrópu. Fjöldi stofnana vinni að aðgerðum gegn spillingu, íslenska þjóðfélagið sé gegnsætt og litlar líkur á því að spilling geti þrifist við þær aðstæður. Lýst er því viðhorfi íslenskra stjórnvalda að spilling sé ekki meiriháttar vandamál í þjóðfélaginu, en þau séu meðvituð um að hætta á spillingu sé alltaf fyrir hendi Niðurstaða GRECO nefndarinnar var að samþykkja þrenn tilmæli (recommendations) til íslenskra stjórnvalda varðandi aðgerðir til að sporna við spillingu, en þau voru eftirfarandi:

1. Að lögð verði drög að stefnu gegn spillingu og varið til þess nauðsynlegu fé, þannig að innan ramma hennar verði unnt að nýta betur möguleika eftirtalinna stofnana til að koma í veg fyrir og takmarka spillingu: Umboðsmanns Alþingis, Samkeppnisstofnunar, Ríkisendurskoðunar, Fjármálaeftirlits, Verslunarráðs, Samtaka atvinnulífsins, fjölmiðla og annarra.
2. Að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra verði séð fyrir nauðsynlegri þjálfun til að unnt verði að sækja meira á í forvörnum, rannsóknum og saksókn spillingarmála. Deildin gæti þannig orðið sérhæfðara tæki til löggæslu á sviði spillingarmála
3. Að leidd verði í lög ákvæði sem tryggja að upplýsingar, sem opinberir starfsmenn fá í starfi sínu um spilingarmál eða grun um slíkt verði tilkynntar þeim stjórnvöldum sem rannsókn annast.

Meðfylgjandi er þýðing úr ensku (Word skjal) á þeim hluta skýrslunnar þar sem fjallað er um greiningu á stöðu mála varðandi spillingu hér á landi og niðurstöður nefndarinnar. Skýrslan er birt í heild sinni (Word skjal) á ensku á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins, domsmalaraduneyti.is.


Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
25. september 2001.





Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum