Varnarmálaráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins í Brussel
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 087
Varnarmálaráðherrar Atlantshafsbandalagsins komu saman til óformlegs fundar í Brussel í dag til að ræða afleiðingar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum og framtíðarhlutverk bandalagsins í baráttunni gegn hryðjuverkum. Einnig ræddu þeir ástandið á Balkanskaga, einkum í Fyrrverandi Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu.
Varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Paul Wolfowitz, gerði grein fyrir þeim margþættu aðgerðum sem stjórnvöld í Washington hefðu gripið til, meðal annars pólitískra, diplómatískra og efnahagslegra. Ráðherrarnir lýstu eindreginni samstöðu með Bandaríkjunum í baráttunni sem framundan er.
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, lýsti yfir stuðningi við það hvernig Bandaríkin hafa brugðist við í kjölfar þessarra voðaverka. Hann sagði jafnframt að ódæðisverkin væru árás á þau gildi sem aðildarríkin hefðu í hávegum. Þess vegna yrðu ríkin nítján að standa saman í baráttunni gegn hryðjuverkum og væri Ísland reiðubúið til að leggja af mörkum eftir efnum og ástæðum.
Á fundinum var einnig rætt um ástandið í Fyrrverandi Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu, en fastaráð Atlantshafsbandalagsins samþykkti fyrr í dag að senda liðsafla til landsins, í samráði við þarlend stjórnvöld, til verndar eftirlitsmönnum Evrópusambandsins og Öryggissamvinnustofnunar Evrópu.
Síðdegis áttu varnarmálaráðherrarnir síðan fund með varnarmálaráðherra Rússlands, Sergei Ivanov, þar sem rætt var m.a. um hina sameiginlegu baráttu gegn hryðjuverkum.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 26. september 2001.