Fundur norrænu samstarfsráðherranna í Helsinki
Fundur norrænu samstarfsráðherranna í
Helsinki 28.-29. september 2001
Norrænu samstarfsráðherrarnir hittust á fundi í Helsinki í lok síðastliðinnar viku. Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra og samstarfsráðherra fyrir Íslands hönd sat fundinn, en að honum loknum áttu ráðherrarnir sérstakan fund með samstarfsráðherrum Eystrasaltsríkjanna þar sem rætt var um framtíðarskipan á samstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna.
Fyrir fundi norrænu samstarfsráðherranna lá meðal annars að ræða skýrsluna ,,Norðurlönd 2000 - Umleikin vindum veralda", og samþykktu ráðherrarnir tillögu þess efnis að á næstu árum yrði fimm meginsviðum gefinn sérstakur forgangur í norrænu samstarfi. Þetta eru málefni er varða tækniþróunina og upplýsingasamfélagið, innri markað á Norðurlöndum og afnám á hvers kyns landamærahömlum, velferð og réttindi norrænna borgara til þess að lifa og starfa í öðru norrænu ríki, umhverfismál og sjálfbæra þróun og samvinnu við nágrannalönd og grannsvæði þ.e. Eystrasaltsríkin og aðrar Evrópuþjóðir. Jafnframt var fallist á tillögu frá Íslandi þess efnis að unnt verði að þróa enn frekar það samstarf sem þegar er hafið við grannhéruð þeirra ríkja sem liggja að Norður-Atlantshafinu.
Þá samþykktu samstarfsráðherrarnir einnig nýja samstarfsáætlun vegna Norðurskautssvæðanna þar sem áhersla er lögð á málefni þeirra sem byggja norðlæg, strjálbýl svæði. Markmið hins norræna samstarfs á þessu sviði eru meðal annars að bæta lífskjör fólks á umræddum svæðum, að gera íbúunum kleift að nýta sér landsins gagn og nauðsynjar án þess að valda náttúruspjöllum, að draga úr mengun með sameiginlegum aðgerðum og að samræma starfið öðru alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði, s.s. á vettvangi Norðurskautsráðsins. Áætlunin nær til nyrstu héraðanna á Norðurlöndum, í Rússlandi og í Kanada.
Á fundinum með ráðherrum Eystrasaltsríkjanna var kynnt sú áætlun sem samþykkt hefur verið fyrir samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar um málefni grannsvæðanna, en samstarfið við Eystrasaltsríkin fer fram innan þeirrar áætlunar. Einnig var þeim kynnt stefnumótunin ,,Närmare Norden" (Nær Norðurlöndum), sem er langtíma stefnumótun fyrir þetta samstarf. Á fundinum áttu sér stað gagnlegar umræður þar sem fram komu upplýsingar um áherslur þær sem Eystrasaltsríkin vilja sjá í samstarfinu.