Hoppa yfir valmynd
3. október 2001 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Viðamiklar aðgerðir í skattamálum



Viðamiklar aðgerðir í skattamálum til að efla atvinnulífið og treysta hag heimilanna


Ríkisstjórnin hefur ákveðið að beita sér fyrir víðtækum umbótum í skattamálum einstaklinga og atvinnulífs. Í fyrsta lagi eru gerðar margvíslegar breytingar á skatthlutföllum og viðmiðunarstærðum skattkerfisins bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Í öðru lagi eru verðbólguleiðréttingar í skattskilum og reikningsskilum afnumdar sem er stórt skref í átt að aðlögun okkar skattkerfis að skattkerfum annara ríkja. Í þriðja lagi er lagt til að skattaleg meðferð einstaklinga í atvinnurekstri við yfirfærslu rekstrarins í einkahlutafélag lúti sömu reglum og yfirfærsla milli annarra félagsforma. Í fjórða lagi eru ýmsar aðrar breytingar sem snúa að túlkun og framkvæmd laganna.

Einstakar breytingar á sköttum einstaklinga:

  • Eignarskattar einstaklinga lækka úr 1,2% í 0,6% miðað við árslok 2002
  • Sérstakur eignarskattur einstaklinga (þjóðarbókhlöðuskattur) fellur niður miðað við árslok 2002
  • Skattlagning húsaleigubóta er afnumin frá og með árinu 2002
  • Tekjuskattur einstaklinga lækkar um 0,33% 1. janúar 2002
  • Frítekjumörk í sérstökum tekjuskatti einstaklinga (hátekjuskatti) hækka um 15% vegna tekna á árinu 2001
  • Fríeignarmörk í eignarskatti og sérstökum eignarskatti einstaklinga hækka um 20% vegna eigna í árslok 2001 til þess að koma í veg fyrir að hækkun fasteignamats leiði til hækkunar eignarskatta á næsta ári

Einstakar breytingar sem varða atvinnulífið:
  • Tekjuskattur fyrirtækja lækkar almennt úr 30% í 18% 1. janúar 2002
  • Eignarskattur fyrirtækja lækkar úr 1,2% í 0,6% miðað við árslok 2002
  • Sérstakur eignarskattur fyrirtækja (þjóðarbókhlöðuskattur) fellur niður miðað við árslok 2002
  • Verðbólgureikningsskil verða afnumin frá 1. janúar 2002
  • Fyrirtækjum verður heimilt að færa bókhald og ársreikninga í erlendri mynt frá 1. janúar 2002
  • Tryggingagjald hækkar um 0,77% frá 1. janúar 2003

Að auki verður stimpilgjald lækkað frá 1. janúar 2003, bæði fyrirtækjum og einstaklingum til hagsbóta.

Áhrif á tekjur ríkissjóðs:
Áætlað er að þessar breytingar geti lækkað tekjur ríkissjóðs fyrst í stað (2003) um 3,5 milljarða króna þegar tekið hefur verið tillit til veltuáhrifa og annara þátta. Hér er um varlega áætlun að ræða og líklegt að tekjulækkunin verði enn minni og snúist í tekjuauka þegar fram í sækir.

Aðrar skattbreytingar sem gerðar hafa verið á kjörtímabili ríkisstjórnarinnar:

  • Á kjörtímabilinu verður persónuafsláttur gerður að fullu millifæranlegur á milli hjóna eða sambúðarfólks í stað 80% áður.
  • Heimildir fólks til viðbótarlífeyrissparnaðar voru hækkaðar úr 2% í 4% og mótframlag ríkisins hækkað í samræmi við það. Skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa almennings var framlengdur til ársins 2002 og sett voru sérstök skattaleg ákvæði vegna kaupa starfsfólks á hlutabréfum samkvæmt kaupréttarákvæðum.
  • Á kjörtímabilinu hefur verið dregið úr álögum ríkisins á ökutæki og eldsneyti og dregið úr neyslustýringu.
  • Stuðningur ríkisins við barnafjölskyldur hefur verið aukinn. Um næstu áramót kemur til framkvæmda annar áfangi af þremur í hækkun barnabóta, en alls munu þær hækka um meira en þriðjung á árunum 2001-2003, eða sem nemur tæpum 2 milljörðum króna.
  • Almannatryggingabætur hafa hækkað verulega, síðast á grundvelli laga frá í maí 2001.

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um boðaðar skattalækkanir hvílir á þremur meginforsendum.
Í fyrsta lagi

hefur góð afkoma ríkissjóðs á undanförnum árum gert ríkisstjórninni mögulegt að bregðast við minni hagvexti með jákvæðum og almennum aðgerðum án þess að stefna rekstri ríkissjóðs í hættu.
Í öðru lagi er ljóst að síharðnandi alþjóðleg samkeppni gerir kröfur um að íslenskt skattaumhverfi sé samkeppnishæft í samanburði við önnur lönd.
Í þriðja lagi er það í samræmi við góða hagstjórn að ríkið lækki skatta þegar um hægist í efnahagslífinu. Þannig er atvinnulífinu gefin vítamínsprauta og dregið er úr áhrifum hagsveiflunnar.


Reykjavík, 3. október 2001

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta