Hoppa yfir valmynd
4. október 2001 Utanríkisráðuneytið

Fréttatilkynning frá utanríkisráðuneytinu og sjávarútvegsráðuneytinu -Reykjavíkuryfirlýsing um ábyrgar fiskveiðar í vistkerfi sjávar

Fréttatilkynning frá utanríkisráðuneytinu og sjávarútvegsráðuneytinu
4. október 2001


Ráðstefnunni Ábyrgar fiskveiðar í vistkerfi sjávar, sem staðið hefur í Reykjavík frá 1. október sl., lauk síðdegis í dag.

Tilgangur ráðstefnunnar var að ræða hvernig koma má vistkerfisnálgun í auknum mæli að í fiskveiðum. Vísað er til fréttatilkynningar sem gefin var út fyrir ráðstefnuna um efni hennar, efnistök og fjölda þátttakenda og þátttökuríkja dagsett 27. sept. sl. (sjá vef sjávarútvegsráðuneytisins, www.sjavarutvegsraduneyti.is)

Yfirlýsing ráðstefnunnar, Reykjavíkuryfirlýsing um ábyrgar fiskveiðar í vistkerfi sjávar, sem samþykkt var í dag á síðasta fundi ráðstefnunnar, fylgir hér með.

Yfirlýsingin verður framlag sjávarútvegsríkja til leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem haldin verður í Jóhannesarborg á næsta ári í tilefni af því að 10 ár eru liðin frá því að ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun um sama efni var haldin í Ríó de Janeiró.

Í yfirlýsingu ráðstefnunnar eru ítrekaðar skuldbindingar þjóða heims til að stunda fiskveiðar með ábyrgum og sjálfbærum hætti.

Í yfirlýsingunni segir að markmið þess að taka tillit til vistkerfisþátta við fiskveiðistjórnun sé að stuðla að matvælaöryggi til lengri tíma og þróun samfélaga auk þess að tryggja vernd og sjálfbæra nýtingu vistkerfa hafsins og auðlinda þeirra.

Þar segir einnig að tillit til vistkerfisþátta við fiskveiðistjórnun feli í sér að tekið sé mið bæði af áhrifum sjávarútvegs á vistkerfið og áhrifum vistkerfisins á sjávarútveg. Einnig er lögð áhersla á aðra þætti sem hafa áhrif á vistkerfi hafsins svo sem mengun frá landi.

Í yfirlýsingunni er lögð áhersla á samspil hinna ýmsu þátta vistkerfisins. Meðal annars er tekið fram að kanna eigi þetta samspil nánar, þar með talið fæðusamsetningu einstakra stofna og tegunda og samspil hinna ýmsu tegunda innan fæðukeðjunnar.

Forseti ráðstefnunnar var Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra.

Declaration on Responsible Fisheries in the Marine Ecosystem



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta