Hoppa yfir valmynd
5. október 2001 Dómsmálaráðuneytið

Fundur Evrópskra dómsmálaráðherra í Moskvu 4. og 5. október

Fundur Evrópskra dómsmálaráðherra í Moskvu 4. og 5. október

Fréttatilkynning

Nr. 34/ 2001


24. fundur Evrópskra dómsmálaráðherra var haldinn í Moskvu dagana 4. og 5. október. Fundurinn er þáttur í ríkjasamstarfi Evrópuráðsins.

Í þetta skiptið fór mikið af fundartímanum í að ræða viðbrögð við hryðjuverkastarfsemi og var samþykkt ályktun um það mál, þar sem aðildar- og áheyrnarríki Evrópuráðsins eru hvött til ýmissa aðgerða.

Þeirra á meðal má nefna aðild að alþjóðlegum samningi frá 1999 um stöðvun fjárstreymis til hryðjuverkastarfsemi og samningi Sameinuðu þjóðanna um stofnun alþjóðlegs sakamáladómstóls sem fjalla á um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni. Einnig var minnst á nýlega samþykkt Öryggisráðs S.þ. um aðgerðir gegn fjármögnun hryðjuverkastarfsemi.

Í ályktuninni eru ríkin hvött til að endurskoða og endurbæta, ef þörf krefur, löggjöf er varðar baráttuna gegn hryðjuverkum og að auka samstarf sitt á því sviði þ.á.m. með upplýsingagjöf milli löggæslustofnana.

Á ráðstefnunni í Moskvu var einnig fjallað um fullnustu dóma í einkamálum og um þungar fangelsisrefsingar. Lýstu fulltrúar einstakra ríkja stöðunni og reynslu sína á þessum sviðum.

Á þessu ári er þess minnst í Rússlandi að 200 ár eru liðin frá stofnun dómsmálaráðuneytisins. Í ávarpi, sem Putin forseti flutti, lýsti hann áformum um miklar umbætur í réttarfari sem nú er unnið að. Sagði forsetinn að stefnt væri að því að Rússland yrði lýðræðis- og réttarríki í fremstu röð í álfunni og m.a. styddust Rússar þar við fyrirmyndir Evrópuráðsins í löggjafarstarfi. Rússar hafa nú fullgilt nær alla sáttmála sem gerðir hafa verið á vettvangi Evrópuráðsins.

Fundinn sótti af Íslands hálfu Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri í dómsmálaráðuneytinu.


Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
5. október 2001.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum