Gildistaka fríverslunarsamnings við Mexíkó
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 091
Þann 1. október s.l. tók gildi fríverslun milli Íslands og Mexíkó á grundvelli fríverslunarsamnings EFTA ríkjanna og Mexíkó sem undirritaður var 27. nóvember 2000.
Samningurinn felur í sér að full fríverslun mun gilda í viðskiptum með iðnaðarvörur. Jafnframt mun Ísland samkvæmt samningnum hafa sambærilegan aðgang að markaði í Mexíkó og ríki Evrópusambandsins hafa fyrir sjávarafurðir sínar. Hins vegar inniheldur samningurinn frjálsari upprunareglur en samningur Evrópusambandsins að því er varðar saltaðan þorsk. Tollur á sjávarafurðir fellur ýmist niður að fullu við gildistöku samningsins eða er afnuminn í þrepum á nokkrum árum.
Í fríverslunarsamningnum er að finna ákvæði um þjónustuviðskipti og fjárfestingar, sem fela meðal annars í sér skuldbindingar um að taka ekki upp nýjar reglur sem hamli viðskiptum og þjónustu og að gildandi takmarkanir verði afnumdar á 10 árum.
Samhliða framangreindum fríverslunarsamningi var gerður tvíhliða samningur milli Íslands og Mexíkó um viðskipti með landbúnaðarvörur. Mexíkó fær sambærilegan aðgang að íslenskum markaði og Evrópusambandið hefur fyrir grænmeti og ávexti en Ísland hlýtur tollfrjálsan aðgang að markaði í Mexíkó fyrir grænmeti og hross á fæti.
Gert er ráð fyrir að tvíhliða fjárfestingarsamningur milli Íslands og Mexíkó verði undirritaður innan skamms.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 5. október 2001.