Heimsókn fulltrúa Evrópuþingsins
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 17/2001
Heimsókn fulltrúa Evrópuþingsins,
framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins
og nokkurra erlendra stórfyrirtækja til Íslands 4. - 8. október 2001.
Markmið þeirra er að kynnast notkun og rannsóknum Íslendinga á umhverfisvænni orku.
Sérstök áhersla verður lögð á rannsóknir á vetni.
Tilefni þessa er að á umliðnum árum hefur Ísland lagt sérstaka áherslu á framleiðslu umhverfisvænnar orku. Má nú rekja 68% af orkunotkun hér á landi til endurnýjanlegrar orku, sem er hæsta hlutfall innan Evrópu.
Frekari skref hafa einnig verið stigin á þessu sviði hér á landi, með sérstakri áherslu á verkefni og málefni er tengjast vinnslu og nýtingu á vetni sem orkubera framtíðar. Þetta undirstrikar enn frekar sérstöðu landsins hvað varðar framleiðslu á hreinni, umhverfsivænni og endurnýjanlegri orku.
Þessi sérstaða hefur vakið verðskuldaða athygli innan Evrópu sem og á alþjóðavettvangi eins og kunnugt er. Þannig hefur áhugi vaknað á þessu máli hjá þingmönnum Evrópuþingsins, ekki síst "hreinni" framleiðslu á vetni með jarðhita eða vatnsorku, í stað kolvetnissambanda eða kjarnorku, sem og verkefni er snúa að nýtingu á vetni sem aflgjafa á almenningsfarartæki. Þess má einnig geta að í nóvember sl. stóð Ísland fyrir sérstakri ráðstefnu í Brussel er fjallaði um þessi mál í Brussel, undir heitinu "New Energy Day".
Af þessu tilefni kom fram tillaga frá Evrópuþinginu, Orkustofnun Evrópu (Fondation Européenne de l'Énergie ) sem og frá erlendum stórfyrirtækjum, um að halda sérstakan fund á Íslandi er fjallaði um orkugjafa framtíðar, með áherslu á sérstöðu Íslands. Vegna fundarins koma 15 háttsettir fulltrúar fyrrnefndra erlendra aðila. Erindi vegna þessa máls barst í apríl sl. frá Dr. Rolf Linkhor sem á sæti á Evrópuþinginu og er jafnframt forseti Orkustofnunar Evrópu.
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti hafa haft samráð við fjölmarga innlenda aðila vegna skipulagningar á fundum og ferðum hópsins. Þess má geta að verkefni sem unnið er að á Íslandi á þessu sviði, njóta sum hver verulegra fjárframlaga frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Heildarfjármagn sem lagt hefur verið í verkefnin af hálfu framkvæmdastjórnarinnar sem og annarra erlendra samstarfsaðila, skiptir orðið nokkur hundruðum milljóna króna.
Heimsóknir sem þessar hafa mikið gildi fyrir aðildarríki EES samningsins, þar sem EFTA löndin hafa ekki aðgang að Evrópuþinginu.
Fjölmiðlum gefst kostur á að hitta sendinefndina undir lok heimsóknarinnar í fundarsal Bláa Lónsins, sunnudaginn 7. október milli kl. 12:30 og 14:30. Þar verður boðið upp á hádegisverð og tekin saman helstu atriði heimsóknarinnar.
Meðfylgjandi er dagskrá heimsóknarinnar og listi yfir þátttakendur.
4. okt. 2001
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið