Hoppa yfir valmynd
8. október 2001 Dómsmálaráðuneytið

Rafrænar kosningar, stöðuskýrsla til dómsmálaráðherra 09/2001

Rafrænar kosningar


Ráðuneytið efndi vorið 2000 til hugmyndasamkeppni um tilhögun kosninga með rafrænum hætti. Tekið var fram að hugmyndirnar skyldu fjalla um:

- tæknibúnað á kjörstað
- kjörskrármerkingar
- kosningar með eða án notkunar kjörseðla
- sendingu kosningaúrslita af kjörstað til yfirkjörstjórna
- talningu atkvæða á kjörstað eða hjá yfirkjörstjórnum
- úrvinnslu kosningaúrslita.

Alls bárust 6 tillögur í keppninni og fengu 2 þeirra 1. – 2. verðlaun og voru valdar úr til frekari úrvinnslu. Auk þess fengu 2 aðrar tillögur viðurkenningu.

Þeir aðilar sem stóðu að þeim tillögum sem valdar voru til frekari úrvinnslu voru fyrirtækin EJS hf. og Tölvubraut hf. Hefur síðarnefnda fyrirtækið síðar stofnað sérstakt fyrirtæki um kosningakerfið sem nefnist e-Vote ehf., en m.a. hefur fyrirtækið SKÝRR komið að þróun þess.

Þessi fyrirtæki voru styrkt til þess að þróa sýningarhæfa útgáfu af kosningakerfum og er þeirri þróun nú lokið. Kerfi EJS var reynt í svokallaðri flugvallarkosningu hjá Reykjavíkurborg og reyndist vel. Einnig hefur skyld útgáfa þess verið notuð á þingi Alþýðusambands Íslands, en bæði kerfin eru hönnuð á þann veg að þau má nota við margvíslegar kosningar.

Það sem einkennir bæði kerfin er að þau skiptast í tvö þætti. Annars vegar er haldið utan um hverjir hafi kosið og er þar hægt að bera það saman við kjörskrá, sem getur verið miðlæg fyrir sveitarfélög eða landið allt. Algjörlega aðskilið frá þeim þætti er svo kosningin sjálf og úrvinnsla kosningaúrslita og er engin leið að rekja hvað hver einstaklingur hefur kosið. Þessu tengjast svo tölvufjarskipti o.fl. Í báðum kerfum er gert ráð fyrir að kosning fari fram á kjörstöðum eins og nú er og ekki að sinni hreyft við fyrirkomulagi utankjörstaðaatkvæðagreiðslu og yrði að handtelja úrslit hennar og færa þau inn í tölvukerfið sérstaklega. Í framtíðinni mætti hins vegar þróa viðbót við kosningakerfin sem hentaði fyrir utankjörstaðaatkvæðagreiðslu.

Báðir aðilar hafa áhuga á því að kerfin þeirra verði reynd að einhverju leyti í sveitarstjórnarkosningum á komandi vori, ýmist kjörskrárþátturinn eingöngu eða kerfin í heild og þá í fáum sveitarfélögum. Nokkur sveitarfélög hafa lýst yfir áhuga sínum á því að prófa rafrænar kosningar í vor og myndu þau þá semja við annan hvorn aðilann um afnot af kerfi hans. Einnig er þess að geta að báðir aðilarnir hafa hug á því að þróa kerfi sín til útflutnings, en það styrkir stöðu þeirra í markaðssókn á erlendri grundu ef reynsla er komin á notkun kerfanna hér á landi.

Ráðuneytið hefur haft samband við félagsmálaráðuneytið út af þessu máli og bent þeim á að gera þurfi breytingar á lögunum um sveitarstjórnarkosningar ef leyfa eigi rafrænar kosningar. Ráðuneytið mun eiga fund° um málið með félagsmálaráðuneytinu til þess að fara yfir, hvaða breytingar þurfi að gera.

Ráðuneytið hefur notið aðstoðar Dr. Jóns Þórs Þórhallssonar ráðgjafa í tölvumálum, og er hann nú að kanna tvö atriði í þessu sambandi. Í fyrsta lagi "vottun" kosningabúnaðar, þ.e. að aðilar sem fengið hafa faggildingu Löggildingarstofunnar skoði kosningabúnaðinn í hvert skipti og votti að hann sé í lagi og engin brögð séu í tafli. Hér er bæði um að ræða vottun hugbúnaðar, vélbúnaðar og tenginga milli tölva. Í öðru lagi er hann að kanna, hvort setja megi saman sérstakar "kosningatölvur", en þar er um einfaldar tölvur að ræða sem notaðar verði við kosninguna sjálfa. Meginatriði í smíði þeirra, er að á þeim verði stór flatur skjár, þar sem hægt er að skoða flókna kjörseðla, t.d. við kosningar í Reykjavík með fjölda framboðslista, lyklaborð yrði sérhannað með stórum hnöppum og "kosningamús" og loks yrði einhvers konar lás á tölvunni sem hægt væri að innsigla þegar vottun á henni hefur farið fram. Slíkar tölvur mætti vafalaust setja saman hér á landi að mestu úr tiltækum íhlutum, en hugsanlega vildu stórir erlendir tölvuframleiðendur einnig þróa slíkar tölvur sérstaklega fyrir markaðinn eftir hugmyndum okkar.

Kosningatölvan væri það sem sneri að kjósendum á kjörstað, en starfsmenn í kjörstjórn notuðu hins vegar venjulegar tölvur, sem tiltækar eru í hverju sveitarfélagi, við að fylgjast með hvort viðkomandi einstaklingur er á kjörskrá og að merkja við kjörskrána, þegar hann hefur kosið. Hægt væri að veita t.d. stjórnmálaflokkum aðgang jafnóðum um kosningaþátttöku og hverjir eru búnir að kjósa.

Verði kosningakerfin reynd að einhverju leyti við næstu sveitarstjórnarkosningar er að þeim loknum hægt að meta reynsluna og þá hvort taka eigi upp rafrænar kosningar í næstu Alþingiskosningum. Trúlega yrði það ekki ódýrari kostur en núverandi fyrirkomulag, a.m.k. til að byrja með, en hins vegar er hér um skilvirkari og skjótari framkvæmd að ræða og yrði vafalaust hægt að ná talsverðum sparnaði fram við frekari þróun þessarar tækni í framtíðinni og það jafnvel þótt kosningafyrirkomulag yrði síðar flóknara eins og þekkist í sumum nágrannaríkjum okkar, þar sem persónukjör er ríkari þáttur í kosningum þótt val milli framboðslista sé aðalatriðið.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum