Hoppa yfir valmynd
9. október 2001 Heilbrigðisráðuneytið

6. - 12. október 2001

Fréttapistill vikunnar
6. - 12. október 2001



Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu má ekki verða til þess að hagsmunum tiltekinna þjóðfélagshópa sé fórnað á altari sérhagsmuna segir heilbrigðisráðherra

Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, ávarpaði í dag aðalfund Læknafélags Íslands og gerði að umtalsefni heilbrigðisáætlun til ársins 2010, forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni, rekstrarform og samninganefndarfrumvarp ríkisstjórnarinnar. Ráðherra undirstrikaði í máli sínu bæði þá hefð og hugmyndafræði sem heilbrigðisþjónustan íslenska byggist á. Hann sagðist ekki andstæðingur einkarekstrar og að hann teldi einkastofurekstur sem nú tíðkaðist þrífast ágætlega við hlið heilsugæslunnar og sjúkrahúsanna. Aftur á móti sagðist hann vilja árétta að hann væri andsnúinn einkarekstri þar sem hætta væri á að hagsmunum tiltekinna þjóðfélagshópa væri fórnað á altari sérhagsmuna.
RÆÐA RÁÐHERRA...

Þjónusta við geðsjúka á landsbyggðinni verði skoðuð sérstaklega og geðheilbrigðisþjónusta við aldraða verði efld
Alþjóðageðheilbrigðisdagurinn var haldinn 10. október s.l. en fyrir honum standa Alþjóðasamtökin World Federation for Mental Health. Tilgangurinn er að vekja almenning til umhugsunar um geðheilbrigðismál, koma upplýsingum um mögulegar meðferðir á framfæri, og vinna gegn þeim fordómum sem finna má gagnvart geðsjúkum. Í blaðagrein sem Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, skrifaði í Mbl. þennan dag ræðir hann um mikilvægi þess að þjónusta við einstaklinga sem stríða við geðraskanir sé vel samræmd. Hann bendir á að þeir þurfi oft þjónustu frá fleiri en einum aðila og á ýmsum sviðum, s.s. heilbrigðis- félags og menntamála. Eins komi fjölmargir, bæði opinberir aðilar og félagasamtök að ýmsu forvarnarstarfi og sinni meðferð einstaklinga með geðraskanir. Góð samræming þessarar margþættu þjónustu sé því nauðsynlegt til að hver einstaklingur fái þjónustu við hæfi þegar og þar sem þörf er á. Í grein ráðherra kemur fram að í undirbúningi er sérstök úttekt á því hverjir þjónusti einstaklinga með geðraskanir, hvar þjónustan fer fram og hver séu markmið hennar. Í framhaldi af því verður skoðað hvernig auka megi þjónustu við geðsjúka í samfélaginu og segist ráðherra telja mikilvægt að geðsjúkir geti fengið þjónustu utan stofnana eftir því sem hægt er þannig að lífsgæði þeirra geti verið eins mikil og nokkur kostur er. Ráðherra segir að athuga þurfi sérstaklega þjónustu við geðsjúka á landsbyggðinnig og að hugmyndir hafi verið uppi um hugsanlegt samstarf sérfræðinga á þessu sviði við starfsfólk heilsugæslustöðva í hverjum landsfjórðungi. Þá segir hann nauðsynlegt að efla geðheilbrigðisþjónustu við aldraða, m.a. með því að auka fræðslu um geðsjúkdóma hjá þeim sem sinna öldruðum. Einnig telji hann rétt að skoða hvort þörf sé fyrir sérstaka sjúkradeild fyrir aldraða með geðsjúkdóma.

Yfir 20 íslenskir læknar í sérnámi í heimilislækningum
Áhugi á sérnámi í heimilislæknum hefur aukist á ný, eftir nokkra lægð á liðnum árum. Fyrir fimm árum kom heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið á fót fjórum námsstöðum til sérnáms í heimilislæknum á Íslandi og var það gert til að bregðast við vaxandi skorti á heimilislæknum. Um er að ræða starfsnám á heilbrigðisstofnunum en bóklega námið fer fram við Háskóla Íslands. Á síðasta ári voru tíu læknar í skipulögðu sérnámi í heimilislækningum hérlendis og jafnmargir eru að ljúka slíku námi erlendis. Áhuginn á þessu sérnámi fer vaxandi og virðist skipta sköpum fyrir marga að geta stundað það hér á landi. Þá hefur námsstöðum nú verið fjölgað úr fjórum í tíu.

Rannsókn á sjálfsvígshegðun ungs fólks á Íslandi
Landlæknisembættið og fyrirtækið Rannsóknir og greining hafa ákveðið að ganga til samstarfs um rannsókn á sjálfsvígshegðun ungs fólks á aldrinum 14-20 ára á Íslandi árin 1992 og 2000. M.a. verða athugaðar tilraunir til sjálfsvíga, sjálfsvígshugleiðingar ungmenna og sjálfsvígshegðun vina þeirra og ættingja.
MEIRA...




Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
12. október 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta