Hoppa yfir valmynd
11. október 2001 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Dagur íslenskrar tungu 2001

Ágæti viðtakandi


Dagur íslenskrar tungu 2001

Allt frá árinu 1996 hefur verið efnt til margháttaðra viðburða á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember. Í næsta mánuði er komið að þessari skemmtilegu tilbreytingu í þjóðlífinu í sjötta sinn.

Hér með eru allir hvattir til að nota 16. nóvember eða dagana þar í kring til að hafa íslenskuna í öndvegi - enn frekar en endranær - en fjölmargir og ólíkir viðburðir hafa einkennt dag íslenskrar tungu undanfarin ár.

16. nóvember er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar og jafnframt alþjóðlegur dagur umburðarlyndis að tilstuðlan UNESCO. Íslenskt málsamfélag hefur ríkar forsendur til að hafa sterka sjálfsmynd ef svo má segja, þ.e. treysta því að íslenskan sé í senn gagnlegt og lífvænlegt tungumál. Fólk, sem á annað móðurmál en íslensku og er búsett hér á landi, leggur sig í sífellt meira mæli eftir því að læra hana. Hvort sem fólk talar íslensku með miklum eða litlum erlendum hreim sýnir íslenskunámið virðingu gagnvart íslensku sem þeir mega ekki vanþakka sem eiga íslensku að móðurmáli. Jafnframt getur íslenskt málsamfélag eignast auðlind fólgna í tvítyngdum einstaklingum, innsýn þeirra og skilningi á fleiri menningarheimum en hinum íslenska.

Árið 2001 hefur þá sérstöðu, sem kunnugt er, að vera Evrópskt tungumálaár og af því tilefni hefur ýmislegt tengt tungumálum verið á seyði það sem af er árinu, hér á landi eins og í öðrum aðildarlöndum Evrópuráðsins. Dagur íslenskrar tungu verður að þessu sinni jafnframt hluti hinnar íslensku dagskrár á Evrópska tungumálaárinu. Það væri ekki úr vegi að hafa þetta í huga við undirbúning viðburða í tengslum við dag íslenskrar tungu í ár, t.d. með því að beina sjónum sérstaklega að stöðu íslenskunnar gagnvart öðrum tungumálum í Evrópu, huga sérstaklega að kennslu í íslensku sem öðru máli o.s.frv.

Framkvæmdastjórn óskar eftir að fá fregnir af atburðum tengdum degi íslenskrar tungu. Verkefnisstjóri dags íslenskrar tungu er Ingibjörg B. Frímannsdóttir, netfang: [email protected]

Heimasíða dags íslenskrar tungu er: http://menntamalaraduneyti.is/mrn/dit/


Fyrir hönd framkvæmdastjórnar


____________________________________
Ingibjörg B. Frímannsdóttir
verkefnisstjóri
(Október 2001)


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum