Niðurstöður nefndar um menningartengda ferðaþjónustu
Þann 5. nóvember 1999 skipaði samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, nefnd um menningartengda ferðaþjónustu. Nefndin hefur gert tillögur um þau skref sem nauðsynleg eru til að þessi tegund ferðaþjónustu nái að skjóta rótum.
Nefndina skipuðu Tómas Ingi Olrich, alþingismaður og formaður Ferðamálaráðs Íslands, formaður, Dagný Emilsdóttir, framkvæmdastjóri Heimskringlu, Reykholti, Signý Pálsdóttir, menningarmálastjóri Reykjavíkurborgar, Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vesturferða, Ísafirði, og Þorsteinn Gunnarsson, arkitekt og leikari, Reykjavík.
Nefndinni var ætlað að fjalla um sóknarfæri ferðaþjónustunnar á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu og gera tillögur um þau skref sem nauðsynleg eru til að þessi tegund ferðaþjónustu nái að skjóta rótum. Með hliðsjón af því að íslensk ferðaþjónusta verði byggð upp á tveimur meginstoðum, íslenskri náttúru og íslenskri menningu og samverkan þessara þátta, leggur nefndin til að menningartengd ferðaþjónusta verði skilgreind sem sérstök grein ferðaþjónustunnar. Þá leggur nefndin til að haft verði að markmiði að kynna og auka skilning á menningarlegri sérstöðu þjóðarinnar í nútíð og fortíð. Megin áhersla verði lögð á að kynna menningu þjóðarinnar, náttúru landsins og gagnkvæm áhrif þessara tveggja þátta.
Skýrsla nefndar um menningartengda ferðaþjónustu