Ríkislögreglustjóri hefur útgáfu nýrra ökuskírteina
Ríkislögreglustjóri hefur útgáfu nýrra ökuskírteina
Fréttatilkynning
Nr. 35/ 2001
Á mánudaginn 15. október n.k. hefur ríkislögreglustjóri útgáfu nýrra ökuskírteina.
Hefur undirbúningur að framleiðslu nýrra ökuskírteina staðið yfir frá því á síðasta ári í samráði við embætti ríkislögreglustjóra, Ríkiskaup, Skráningarstofu og Umferðarráð, en ríkislögreglustjóri er útgefandi skírteinanna.
Framleiðslan var boðin út og var tilboði tekið frá Bundesdruckerei í Berlín, Þýskalandi, og var undirritaður samningur í framhaldi þess þann 10. apríl sl.
Um er að ræða nýja gerð ökuskírteina sem eru mun endingarbetri og öruggari, en ekki er til tækjabúnaður hér á landi til að framleiða slík skírteini. Reiknistofa bankanna hefur séð um framleiðslu á ökuskírteinunum frá árinu 1997, en hráefni kortanna hafa komið frá tveimur erlendum aðilum.
Nýju ökuskírteinin verða mun endingarbetri og öruggari með tilliti til fölsunar og eru þau unnin með laser-tækni þannig að upplýsingar á kortinu og myndin er grafin inní kortið sjálft. Vandamál hefur verið með þau kort sem nú eru í notkun vegna óeðlilegrar endingar, þ.e.a.s. að myndirnar hverfa stundum af skírteinum eða dofna þannig að fólk verður óþekkjanlegt. Þeir sem eru með gallað skírteini, sem svo er ástatt um, fá nýtt ökuskírteini sér að kostnaðarlausu eins og verið hefur, en eldri gerðir skírteina halda gildi sínu.
Smávægilegar breytingar verða á útliti skírteinanna en meginbreytingin sem þetta hefur í för með sér fyrir lögregluembættin og umsækjendur er að við afgreiðslu ökuskírteinanna verða umsækjendur að láta ljósmynd fylgja með umsókninni, þar sem ekki er lengur aðgangur að myndabanka Reiknistofu bankanna. Myndirnar verða skannaðar og sendar framleiðanda með rafrænum hætti. Þegar mynd er á annað borð komin í ökuskírteinakerfið þarf umsækjandi hins vegar ekki að koma með mynd við endurnýjun. Myndirnar sem verða á skírteinunum verða svart-hvítar en umsækjendur geta skilað inn hvort sem er litmynd eða svart-hvítri.
Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra mun taka við fyrsta ökuskírteininu mánudaginn 15. október n.k.
Af þessu tilefni er boðið til kynningar á nýju ökuskírteinunum hjá embætti ríkislögreglustjóra að Skúlagötu 21, Reykjavík, þann dag kl. 11:30.
Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
10. október 2001.
10. október 2001.